Vafin inn í úkraínska fánann stóð Irina Dovgan á götuhorni í borginni Donetsk, sem er undir yfirráðum skæruliða sem eru hliðhollir Rússum, Fólk sem gekk fram hjá henni ýtti við henni, barði og hrækti á hana. Dovgan var niðurlægð í fjóra sólarhringa og þrátt fyrir að sár á líkama hennar séu að gróa eru enn ör á sál hennar.
Nokkrum dögum síðar, þegar fréttamaður AFP hitti þessa 52 ára gömlu konu að máli, er hún enn með áverka. Dovgan er ein fárra borgarbúa sem hafa opinberlega lýst yfir stuðningi við yfirvöld í Kænugarði og hún hefur þurft að líða fyrir stuðning sinn. Aðskilnaðarsinnar héldu henni í fjóra sólarhringa en hún er nú stödd í Kænugarði og efast um að hún muni snúa heim á ný.
Hinn 24. ágúst, á þjóðhátíðardegi Úkraínu, réðst á annan tug manna inn á heimili hennar í Yasynuvata, nálægt Donetsk. Árásarmennirnir sökuðu hana um að hafa veitt úkraínska hernum viðkvæmar upplýsingar sem þeir nýttu við árásir gegn uppreisnarmönnum. Farið var með hana í höfuðstöðvar aðskilnaðarsinna í Donetsk. „Þeir skutu svo nálægt höfðinu á mér að ég missti heyrnina. Þeir lýstu því í þaula hvernig þeir ætluðu að nauðga mér. Þeir börðu mig og spörkuðu í mig.“
Hún segir að þeir hafi sýnt henni mynd af fimmtán ára gamalli dóttur hennar og spurt hana hvað hún teldi að margir gætu nauðgað henni áður en hún myndi deyja. 40? 60?
Amnesty International-samtökin hafa sakað bæði skæruliða hliðhollar Rússum og úkraínska hermenn um stríðsglæpi, brottnám, pyntingar og morð, á þeim fimm mánuðum sem barist hefur verið í austurhluta Úkraínu.
Eftir að hafa barið hana fóru kvalarar Dovgan með hana í miðborg Donetsk vafða inn í úkraínska fánann. Festu þeir á hana skilti þar sem á stóð: „Hún drepur börnin okkar“.
Hún segir að konur hafi komið verst fram við hana. Ein þeirra opnaði skottið á bifreið sinni og hóf að kasta tómötum í hana. Síðan kramdi hún nokkra tómata á andlitinu á Dovgan.
Ein eldri kona barði hana í bakið með staf sínum. Það sem bjargaði Dovgan var að hópur erlendra fréttamanna kom á vettvang og birtist meðal annars mynd af Dovgan, þar sem ung kona sést berja hana, í New York Times. Í kjölfarið var Dovgan látin laus úr haldi skæruliða.
En þessa fjóra daga sem henni var haldið var heimili hennar lagt í rúst og í kjölfarið lagði hún land undir fót og hélt til höfuðborgarinnar þar sem hún er nú.