Pútín: Skapa vanda til að styrkja NATO

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að Vesturveldin beri ábyrgð á því neyðarástandi sem hefur skapast í Úkraínu en hann sakar þau um að nota ástandið til að blása nýju lífi í Atlantshafsbandalagið (NATO).

„Verið er að nota neyðarástandið í Úkraínu, sem sumir af okkar vestrænu félögum bjuggu til, til að blása nýju lífi í þetta hernaðarbandalag [NATO],“ sagði Pútín á ríkisstjórnarfundi í Rússlandi í dag. Frá þessu greinir rússneska fréttastofan RIA Novosti.

Petro Porosénkó, forseti Úkraínu, segir að hann sé reiðubúinn að veita aðskilnaðarsinnum í austurhltua landsins aukna sjálfstjórn til að koma í veg fyrir að Úkraína liðist í sundur. Forsetinn segir að gildandi vopnahlé hafi breytt ástandinu verulega, þrátt fyrir fréttir þess efnis að aðskilnaðarsinnar hafi náð nýjum bæ á sitt vald. 

Fram kemur á vef BBC, að einn af leiðtogum aðskilnaðarsinna hafi látið ummæli forsetans sem vind um eyru þjóta. Hann segir að aðskilnaðarsinnar séu staðráðnir í því að slíta sig frá Úkraínu og stofna sjálfstætt ríki. 

Yfir 2.600 hafa látist frá því stríðsátökin hófust í apríl sl. 

Porosénkó segist hafa rætt við Pútín í síma í gær og voru þeir sammála um ágæti þess að vopnahléið héldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert