Boðar loftárásir á Sýrland

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, boðar vægðarlaust stríð gegn Ríki íslam, þar á meðal loftárásir í Sýrlandi og frekari aðgerðir í Írak til þess að eyða her samtakanna sem fer ránshendi um landið. Þetta kom fram í ávarpi forsetans í nótt en hann ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi. 

Þjóðarbandalagið, helstu samtök sýrlenskra stjórnarandstæðinga, styður hugmyndir Bandaríkjaforseta sem hafði vonast til þess að hans yrði minnst í sögunni sem forsetans sem batt enda á stríð en ekki sem forsetans sem var upphafsmaður frekari stríðsátaka í Mið-Austurlöndum.

Obama boðaði í ávarpi sínu stuðning við herafla Íraks og eins að veita sýrlensku stjórnarandstöðunni stuðning. Hann sagði að Ríki íslam, sem drápu tvo bandaríska blaðamenn og hafa lagt undir sig stór landsvæði í Írak og Sýrlandi, væru óvenjulega hrottaleg samtök, jafnvel á mælikvarða Mið-Austurlanda. „Þeir lífláta fanga. Þeir drepa börn. Hneppa í þrældóm, nauðga og þvinga konur í hjónabönd,“ sagði Obama meðal annars og bætti við að slíkri grimmd væri einungis hægt að svara á einn veg.

Að sögn forsetans eru markmiðin skýr; að veikja og loks eyða sveitum ISIS bæði í Sýrlandi og Írak. Það sé sitt helsta markmið í embætti forseta að ef einhver ógnar Bandaríkjunum muni viðkomandi hvergi eiga öruggt skjól.

Til þess að eyða sveitum Ríkis íslams mun Bandaríkjaher gera loftárásir á búðir Ríkis íslams hvar sem er þær er að finna. Sýrland verður þar ekki undanskilið. Eins verður aukið við þann stuðning sem Bandaríkin veita öllum þeim herjum og vígasveitum sem berjast gegn Ríki íslam með einnig undantekningu - stjórnarherinn í Sýrlandi fær ekki neinn stuðning frá Bandaríkjunum.

Gripið verður til frekari aðgerða til þess að koma í veg fyrir fjármögnun Ríkis íslams og annarra hryðjuverkasamtaka. Eins verður reynt að hindra væntanlega málaliða sem streyma til Mið-Austurlanda til þess að taka þátt í stríðinu þar. Eins verður íbúum Sýrlands og Íraks sem hafa orðið fyrir barðinu á samtökunum veittur stuðningur og neyðaraðstoð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert