Meirihlutinn andvígur sjálfstæði

Meirihluti skoskra kjósenda mun hafna sjálfstæðu Skotlandi ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov birti í dag. Kosið verður í þjóðaratkvæði í landinu 18. september hvort lýsa eigi yfir sjálfstæði frá breska konungdæminu.

Fram kemur í frétt AFP að 52% séu nú hlynnt því að Skotland verði áfram hluti Bretlands en 48 séu því andvíg. Einungis er miðað við þá sem tóku afstöðu með eða á móti. Mikill titringur varð meðal pólitískra forystumanna Bretlands þegar skoðanakannanir fóru að sýna meirihluta hlynntan sjálfstæði í byrjun september og hafa þeir fjölmennt til Skotlands í því skyni að hvetja skoska kjósendur til þess að styðja áframhaldandi veru í breska konungdæminu. Hafa ráðamenn í London heitið Skotum aukinni sjálfstjórn hafni þeir sjálfstæði.

En verði sjálfstætt Skotland niðurstaðan er talið að formlega yrði ekki af því fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár. Ganga þurfi frá ýmsum lausum endum. Þar á meðal utanríkismálum landsins, fyrirkomulagi landamæragæslu og gjaldmiðlamálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert