Rússnesk stjórnvöld segja að alþjóðalög verði brotin með grófum hætti geri Bandaríkjamenn loftárásir á uppreisnarmenn í Sýrlandi.
Utanríkisráðuneyti Rússlands segir að slíkar aðgerðir, sem njóti ekki stuðnings Sameinuðu þjóðanna, yrðu ekkert annað en árás. Þetta segir rússneska fréttastofan Interfax.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði í dag með leiðtogum araba í Sádi-Arabíu, en tilgangur ferðarinnar var að mynda bandalag gegn samtökunum Ríki íslam.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hótaði í ávarpi, sem hann flutti í nótt, að gera loftárásir á liðsmenn samtakanna í Sýrlandi og í Írak. Ríki íslams hefurnáð stórum hlutum landanna á sitt vald í kjölfar áhlaupa.
Obama sagði, að hver sá sem ógni hagsmunum Bandaríkjanna ætti sér engan griðarstað. Forsetinn sagði ennfremur, að 475 hermenn verði sendir til Íraks, en hann bætti við að hlutverk þeirra yrði ekki að taka þátt í átökum.
Rússnesk stjórnvöld hafa brugðist hart við þessum ummælum forsetans, en Rússar hafa verið bandamenn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.