Danska nektardansmærin Jackie Jauqline Oliver og kærasti hennar Martin Salomonsen fengu heldur óblíðar móttökur þegar þau hugðust verja rómantískri helgi í Færeyjum um liðna helgi. Tollverðir á flugvellinum í Vági töldu að parið væri að reyna smygla vímuefnum til eyjanna og tóku þau því til ítarlegrar líkamsskoðunar.
Jackie og Martin komu með áætlunarflugi til Færeyja á föstudaginn síðastliðinn. Í flugstöðinni var fíkniefnaleitarhundur á ferli sem fór að flaðra upp um Jackie. Varð það til þess að tollverðir tóku parið afsíðis, þó í sitthvoru lagi. Þrátt fyrir að engin vímuefni hefðu fundist á Jackie og að hún hefði alfarið neitað að vera með slík efni grunaði tollverði að hún hefði hugsanlega falið þau innvortis.
Tollverðir fóru því með Jackie upp á sjúkrahús. Þegar hún áttaði sig á því að hún væri að fara í röntgenmyndatöku reyndi hún af öllum mætti að sannfæra tollverðina um að það mætti hún alls ekki, því hún væri þunguð. Það hefði hún fengið að vita mánudeginum áður.
Jackie var ekki tekin trúanleg og teknar röntgenmyndir af henni. Og þrátt fyrir að engin vímuefni hefðu fundist í kviðarholi hennar voru tollverðirnir ekki enn sannfærðir um að hún væri ekki að reyna smygla vímuefnum til Færeyjum. Var hún því lögð á bekk og framkvæmd á henni endaþarmsleit.
Til stóð að láta hana einnig gangast undir ristilskoðun en hætt var við það sökum þess hversu mikið Jackie grét. Var henni eftir þessa ítarlegu leit sleppt.
Engin vímuefni fundust heldur á Martin og var hann einnig tekin í röntgenmyndatöku. Hins vegar var honum sleppt við endaþarmsleit og ristilskolun.
„Ég hefði getað trúað því að ferðalangar þyrftu að sæta meðferð sem þessari í Taílandi eða Indlandi, en þetta eru Færeyjar, sem eiga að vera jafn danskar og Kaupmannahöfn eða Óðinsvé,“ segir Martin í samtali við Extra bladet. Hann segir reiði sína ekki beinast að því að þau voru tekin afsíðis til skoðunar heldur að þunguð kona hans hafi verið þvinguð í röntgenmyndatöku, eitthvað sem geti skaðað fóstrið, og að brotið hafi verið gegn kynfrelsi hennar þegar karlmaður hafi stungið fingrum sínum upp í endaþarm hennar.
Extra bladet hafði samband við tollayfirvöld í Færeyjum sem segja að farið hafi verið eftir lögum og reglum í öllum aðgerðum. Þá hafi parið skrifað undir skjal þess efnis að þau samþykktu leit á við þá sem framkvæmd var.