Segir Svíþjóðardemókrata vera miðjuflokk

Skoðanakannanir benda til þess að stjórnmálaflokkurinn Svíþjóðardemókratar kunni að verða þriðji stærsti flokkurinn á sænska þinginu að loknum þingkosningunum sem fram fara í landinu á sunnudaginn. Flokkurinn er einkum þekktur fyrir harða stefnu í innflytjendamálum.

Haft er eftir Anders Sannerstedt, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Lundi, að Svíþjóðardemókratarnir séu eini stjórnmálaflokkurinn í Svíþjóð sem vilji stöðva straum innflytjenda til landsins. Hinir stjórnmálaflokkarnir hafi allir stefnu sem miði að því að halda landinu opnu fyrir innflytjendum. Skoðanakannanir bendi hins vegar til þess að um helmingur sænskra kjósenda vilji draga úr fjölda þeirra hælisleitenda sem fái hæli í Svíþjóð.

Sannerstedt segir að sé horft til annarra málaflokka en innflytjendamála eins og skattamála og hlutverks hins opinbera sé ljóst að Svíþjóðardemókratarnir séu miðjuflokkur. Stefna þeirra í þeim efnum geti ekki flokkast undir öfgastefnu.

Mikael Sundstöm, lektor við Háskólann í Lundi, segir að Svíþjóðardemókratar séu ólíklegir til þess að eiga samleið með jafnaðarmönnum í mörgum málum. Þeir séu aðeins líklegri til þess að eiga samleið með hægriflokkunum. En erfitt sé að segja með hverjum þeir vilji starfa enda eigi þeir í raun hvorki heima í fylkingu hægri- eða vinstriflokkanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka