Kosið verður í þjóðaratkvæði í Skotlandi á fimmtudaginn 18. september hvort landið eigi að vera áfram hluti af breska konungdæminu eða lýsa yfir sjálfstæði. Skoðanakannanir sýna fylkingar sjálfstæðissinna og sambandssinna nánast jafnar og því ljóst að niðurstaðan getur orðið á hvorn veginn sem er.
Síðustu skoðanakannanir hafa sýnt nauman meirihluta gegn sjálfstæðu Skotlandi af þeim sem tekið hafa afstöðu með eða á móti. Lengst af bentu kannanir til meirihluta á móti sjálfstæði en í byrjun september fóru þær þvert á móti að sýna tæpan meirihluta með því. Andstæðar fylkingar búa sig nú undir lokasprettinn og er áherslan einkum á stærstu borg landsins Glasgow.
Forsætisráðherra Skotlands, Alex Salmond, hefur lýst því yfir að hann sé sannfærður um að sjálfstæði verði niðurstaðan. Hið sama er haft eftir Nicola Sturgeon, varaforsætisráðherra landsins. Síðustu kannanir hafi vissulega sýnt meirihluta gegn sjálfstæði en munurinn væri innan skekkjumarka.