Hundruð smágrísa sem sluppu úr haldi og ráfuðu um í lausagangi í Swansea í Wales voru aflífuð í vikunni. Slíkir grísir hafa notið vaxandi vinsælda sem gæludýr á undanförnum árum og hafa m.a. sést í förum stórstjarnanna Victoriu Beckham og Paris Hilton.
Talið er að grísirnir hafi verið allt að þrjú hundruð talsins og að nokkrir þeirra hafi þegar fjölgað sér með grísum af öðru kyni en bændur á svæðinu höfðu kvartað til yfirvalda vegna þessa. Þá höfðu einnig nokkrir áhyggjufullir foreldrar lagt fram kvörtun þar sem talið var að grísirnir gætu verið hættulegir börnum.
Starfsmaður borgarinnar sagði í samtali við BBC að reynt hefði verið að finna upphaflegan eiganda grísanna en engin hefði viljað axla á þeim ábyrgð. Hann sagði engan annan kost hafa verið í stöðunni en að aflífa þá. Þá sagði hann að atvinnumaður hefði séð um verkið með hjálp bænda á svæðinu.
Smágrísir hafa notið vaxandi vinsælda sem gæludýr en þeir eru ræktaðir sérstaklega til þess að vera minni að stærð. Sum afbrigði þeirra geta hins vegar orðið um 1,5 metrar á lengd og um sjötíu kíló að þyngd en þetta hefur leitt til þess að margir hafa sleppt þeim lausum í náttúrunni þar sem þeir hafa þótt óviðráðanlegir á heimilinu.