„Skotland, vertu áfram með okkur“

Umræður um sjálfstæði Skotlands hafa nú heltekið skemmtanaiðnaðinn í Bretlandi en stórstjörnur eins og Paul McCartney og Sean Connery hafa tjáð sig um málið.

7. ágúst skrifuðu 200 frægir einstaklingar undir opið bréf þar sem óskað var eftir því að Skotar héldu sig innan Bretlands. Þar á meðal var McCartney, Mick Jagger, Stephen Hawking, Michael Douglas og Judi Dench.

Höfundur Harry Potter bókanna, JK Rowling hefur einnig verið ötull talsmaður þess að Skotland kjósi ekki eftir sjálfstæði. Rowling, sem er fædd í Englandi en hefur búið í Edinborg í 21 ár gaf eina milljón punda til herferðarinnar „Better Together“ sem vinnur að því að snúa Skotum gegn sjálfstæði. 

Leikkonan Emma Thomson tjáði sig um málið nýlega. „Ég skil rómantíkina í þessu. Ég skil eldmóðinn þar sem að samband landanna hefur verið slæmt í gegnum tíðina. England kom mjög illa fram við Skotland.“ 

Hinsvegar bætti hún við að hún ætti erfitt með að viðurkenna sjálfstæði landsins. „Mér finnst erfitt að viðurkenna það þar sem að landamæri valda bara vandræðum. Af hverju ætti maður að vilja búa til fleiri landamæri milli fólks í heimi sem er alltaf að minnka?“

Tónlistarmaðurinn David Bowie tjáði sig á einfaldan hátt. Hann lét fyrirsætuna Kate Moss lesa upp skilaboð frá sér á verðlaunahátíð. Þau sögðu einfaldlega „Skotland, vertu áfram með okkur.“

Hinsvegar hafa aðrar stjörnur stutt sjálfstæði Skotlands. Fyrrum James Bond leikarinn og stórstjarnan Sean Connery lýsti því yfir að tækifæri Skotlands til þess að fá sjálfstæði væri of gott til að láta framhjá sér fara. „Sem Skoti, sem hefur elskað Skotland og list alla mína ævi, trúi ég því að tækifæri til sjálfstæðis sé of gott til að láta framhjá sér fara.“

Breski leikstjórinn Ken Loach hefur einnig hvatt Skotland til þess að kjósa sjálfstæði. „Yfirvöld í Englandi eru svo miklir heimsvaldasinnar að  þeir geta ekki hugsað sér að eitthvað geti gerst án þeirra samþykkis. En mér finnst að Skotar ættu að kjósa sjálfstæði. Aðrar nýlendur hafa fengið sitt sjálfstæði.“

Grínistinn Russell Brand tjáði sig um málið á Twitter. „Ég hef aldrei kosið en ef ég væri skoskur myndi ég segja já,“ sagði hann meðal annars. Aðrir sem hafa lýst opinberlega yfir stuðningi við sjálfstæði Skotlands er höfundur bókarinnar Trainspotting, fatahönnuðurinn Vivienne Westwood og leikarinn og leikstjórinn Peter Mullan. 

Aðrir hafa ákveðið að tjá sig ekki um málið. Skoski leikarinn James McAvoy hefur til að mynda neitað að tjá sig um skoðun sína og gagnrýnt pólitískar deilur á milli þeirra sem berjast fyrir sjálfstæði og þeirra sem berjast á móti. 

Tennisleikarinn Andy Murray hefur einnig neitað að tjá sig. „Ég veit ekki mikið um stjórnmál og ég hef áður gert þau mistök að tjá mig og varð fyrir miklu aðkasti í kjölfarið. Ég geri það aldrei aftur.“

David Bowie á tónleikum 2002.
David Bowie á tónleikum 2002. AFP
Paul McCartney.
Paul McCartney. TOSHIFUMI KITAMURA
Rithöfundurinn JK Rowling er á móti sjálfstæði Skotlands.
Rithöfundurinn JK Rowling er á móti sjálfstæði Skotlands. Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka