Ætla að ganga frá Ríki Íslams

Aftaka Ríkis Íslam á hjálparstarfsmanninum David Haines hefur hleypt illu blóði í Breta. Fyrrverandi hershöfðingjar hafa verið áberandi á fréttastofu Sky og þeirra skilaboð eru skýr. Ganga skal milli bols og höfuðs á meðlimum Ríkis Íslams. Rétt eins og gert var við Haines.

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um aftökuna eru David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Barack Obama, Bandaríkjaforseti. Í gærkvöldi fjallaði mbl.is um yfirlýsingu Camerons sem ætlar að hundelta þá meðlmi Ríki Íslams sem stóðu að aftökunni.

Bandaríkjaforseti var einnig berorður þegar hann tjáði sig um aftökuna. Obama sagði Bandaríkin standa við bakið á Bretlandi á þessum erfiðu tímum. Einnig að Bandaríkin muni vinna með Bretlandi og öðrum ríkjum sem standi að bandalagi gegn Ríki Íslams. „Við munum finna þá sem frömdu þennan svívirðilega glæp, við munum tryggja að réttlæti nái fram að ganga og ganga frá þeirri ógn sem vestrænum ríkjum stafar af þessum samtökum.“

Framferði þeirra, að birta myndbönd af aftökum á vestrænum borgurum, hefur orðið til þess að Vesturlönd beina sjónum sérstaklega að samtökunum. Það sem sérfræðingar sem rætt hafa við Sky fréttastofuna nefna er að það verða engar samningaviðræður við Ríki Íslam. Ráðist verði gegn samtökunum með loftárásum og af fullum þunga. Samtökin séu skipulögð en ekki mjög tæknilega vel útbúin.

Þá hefur verið nefnt að samtökin séu búin að taka yfir mun meira svæði en þau ráða yfir og því ætti að vera einfaldara en ella að brjóta þau niður á hverjum stað.

Frétt mbl.is: Morðið einskær illska

Frétt mbl.is: Segjast hafa tekið Haines af lífi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert