Hjálpargögn berast Lugansk

Það var íbúum úkraínsku borgarinnar Lugansk kærkomin sjón að sjá hjálpargögn berast borginni í dag.Borgin hefur verið vettvangur átaka á milli úkraínska hersins og aðskilnaðarsinna í fimm mánuði og er mikil þörf á mat og öðrum birgðum meðal íbúa.

Fljótlega myndaðist löng röð fyrir utan hús í miðborginni þar sem birgðunum var dreift. 

„Ég veit ekki hvernig, en einhvernvegin mun lífið verða eðlilegt á ný. Það getur ekki alltaf verið slæmt,“ sagði íbúi Lugansk, Yulia við blaðamann AFP í dag. Hún hélt á ljósgulum poka með þvottaefni, klósettpappír og ávaxtasafa sem hún hafði fengið gefins.

„Við vonum það besta. Ég styð enga hlið í þessu máli,“ sagði hún. „Mér er sama hver mun ráða, eina sem skiptir máli er að það verði friður.“

Rúmlega 2700 manns hafa látist í átökum í austur Úkraínu síðustu fimm mánuði. Jafnframt hefur gífurleg eyðilegging átt sér stað á svæðinu. 

Gennady Tsypkalov, „forsætisráðherra“ sjálfsskipaðs lýðveldis í Lugansk sagði að um 200 þúsund af 450 þúsund íbúum Lugansk hafi flúið borgina í síðasta mánuði. Hins vegar hefur um helmingur þeirra snúið aftur eftir að vopnahlé var sett. Veldur það því að þörfin fyrir birgðir verður meiri. 

„Við erum ekki með rafmagn og allt vatn er búið. Ísskáparnir virka ekki þannig að okkur bráðvantar aðstoð,“ sagði hann. 

Sameinuðu þjóðirnar segja að þeirra markmið sé að útvega allt að 120 þúsund manns mat í Úkraínu næstu sex mánuðina. 

Að sögn rússneskra fjölmiðla hafa hjálpargögn einnig borist til Lugansk frá Rússlandi. Eru það m.a. tvö þúsund tonn af morgunkorni, pasta, lyfjum, eldsneyti, rafmagnsrafölum og teppum.

Tanya, sem býr í þorpi nálægt Lugansk sagði við AFP að hún kæmi til þess að fá bleyjur og safa handa syni sínum, en hann er aðeins átta mánaða gamall. „Þetta kemur sér mjög vel,“ sagði hún og útskýrði að faðir drengsins væri atvinnulaus og að allar bætur frá yfirvöldum hafi hætt að berast þeim. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert