Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur viðurkennt ósigur sinn í sænsku þingkosningunum sem fram fóru í dag en hann hefur farið fyrir ríkisstjórn landsins undanfarin átta ár.
„Okkur tókst þetta ekki,“ sagði Reinfeldt í ávarpi til stuðningsmanna sinna í Stokkhólmi höfuðborg Svíþjóðar. Næsta ríkisstjórn landsins verður væntanlega mynduð af vinstriflokkunum undir forystu jafnaðarmanna. Arftaki Reinfeldts verður Stefan Löfven, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins. Fylking vinstriflokkanna hafa 43,6% þegar nær öll atkvæði hafa verið talin en miðju- og hægriflokkarnir 39,5%. Svíþjóðardemókratar fengu 13%.
Haft er eftir Löfven í frétt AFP að næsta verkefni sé að kanna möguleika á myndun ríkisstjórnar en jafnaðarmenn hafa útilokað samstarf við Svíþjóðardemókrata sem búist er við að tvöfaldi fylgi sitt en flokkurinn boðar harða innflytjendastefnu.
Frétt mbl.is: Vinstriflokkarnir með 44,8% fylgi
Frétt mbl.is: Erfitt gæti reynst að mynda ríkisstjórn