Saka BBC um hlutdrægar fréttir

Tvö þúsund manns mótmæltu í dag á götum Glasgow í Skotlandi fréttaflutningi breska ríkisútvarpsins BBC af kosningabaráttunni í aðdraganda þjóðaratkvæðis í landinu um það hvort lýsa eigi yfir sjálfstæði frá breska konungdæminu eða ekki.

Mótmælendur héldu því fram að BBC væri hlutdrægt í fréttaflutningi sínum og hallaði í þeim efnum á sjálfstæðissinna. Mótmælaganga hófst við George-torg í Glasgow og lauk við höfuðstöðvar BBC í borginni. Fram kemur í frétt AFP að Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands og leiðtogi sjálfstæðissinna, hafi fyrr í vikunni sakað BBC að sama skapi um hlutdrægni. Sagði hann starfsmenn ríkisútvarpsins ekki gera sér grein fyrir því sjálfir. BBC hefur fyrir sína parta alfarið hafnað þessum ásökunum. 

Þjóðaratkvæðið fer fram á fimmtudaginn 18. september og eru andstæðar fylkingar nær hnífjafnar. Síðustu skoðanakannanir hafa hins vegar sýnt sambandssinna með nauman meirihluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka