Tæplega eitt þúsund franskir ríkisborgarar eða einstaklingar búsettir í Frakklandi taka annað hvort þegar þátt í baráttu íslamista í Írak og Sýrlandi eða hafa áform um að gera það. Þar af í það minnsta 60 konur.
Þetta kemur fram í viðtali franska vikublaðsins Le Journal de Dimanche við Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, í dag. Ráðherrann segir í viðtalinu að um 930 manns sé að ræða. Þar hafi 36 þegar látið lífið. Stjórnvöld hefðu komið í veg fyrir að allavega 70 manns yfirgæfu Frakkland til þess að berjast með íslamistum. Þá hefðu stjórnvöld fengið ábendingar um 350 mögulega íslamista í landinu. Þar af 150 konur og 80 einstaklinga undir lögaldri.
Fram kemur í frétt AFP að vestrænar ríkisstjórnir hafi viðrað áhyggjur sínar af því að ríkisborgarar þeirra gangi til liðs við Ríki íslams í Írak og Sýrlandi og snúi síðan heim aftur og fremi hermdarverk þar. Rifjað er upp að maðurinn sem hafi tekið breska hjálparstarfsmanninn David Haines og tvo bandaríska blaðamenn af lífi hafi talað með breskum hreim.