Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokks Svíþjóðar, ætlar að hefja stjórnarmyndunarviðræður í dag en flokkur hans fór með sigur af hólmi í sænsku þingkosningunum í gær. Fékk flokkurinn 31,2% atkvæða. Löfven, sem tók við formannssæti flokksins árið 2012, segir að ekki komi til greina að mynda ríkisstjórn með öfgaflokknum Svíþjóðardemókrötum (SD) en flokkurinn fékk 12,9% atkvæða og er þriðji stærsti flokkur landsins.
Frederik Reinfeldt, formaður Hægri flokksins og forsætisráðherra, tilkynnti stuðningsmönnum sínum í nótt að hann myndi óska eftir afsögn ríkisstjórnar sinnar í dag og eins myndi hann láta af starfi formanns flokksins. Hægri flokkurinn fékk 23,2% atkvæða í gær.
Fylgi rauðgrænu flokkanna – Jafnaðarmannaflokksins, Græna flokksins og Vinstriflokksins er 43,7 prósentustig en borgaraflokkarnir: Hægriflokkurinn (Moderatarna), Frjálslyndi flokkurinn, Miðflokkurinn og Kristilegir demókratar fengu 39,3% atkvæða.Sigur borgaralegu flokkanna í kosningunum fyrir fjórum árum markaði tímamót í sænskum stjórnmálum. Það var í fyrsta skipti í tæp 80 ár sem stjórn borgaralegra flokka í Svíþjóð hélt velli eftir að hafa setið eitt kjörtímabil.
Málefni hælisleitenda hafa verið á meðal helstu deilumálanna í kosningabaráttunni í Svíþjóð vegna metfjölda hælisleitenda í ár. Svíþjóð veitti fleiri flóttamönnum hæli miðað við höfðatölu en nokkurt annað Evrópuland á síðasta ári og búist er við að alls verði hælisleitendurnir um það bil 80.000 í ár.
Umsóknir 24.015 hælisleitenda voru samþykktar í Svíþjóð á síðasta ári en 20.990 umsóknum var synjað. 53% umsóknanna voru samþykkt, en í löndum Evrópusambandsins var hlutfallið 34% að meðaltali. Flestir hælisleitendanna voru Sýrlendingar, fólk án ríkisfangs eða Erítreumenn.
Alls sóttu 435.000 manns um hæli í ESB-löndunum á síðasta ári, þar af 29% í Þýskalandi, 15% í Frakklandi, 13% í Svíþjóð, 7% í Bretlandi og 6% á Ítalíu.