Hent út af heimilinu vegna kynhneigðar

Daniel Ashley Pierce var útskúfaður úr fjölskyldunni vegna kynhneigðar sinnar.
Daniel Ashley Pierce var útskúfaður úr fjölskyldunni vegna kynhneigðar sinnar. Mynd/Facebook

Þegar hinn tvítugi Bandaríkjamaður Daniel Ashley Pierce ákvað í fyrra að ræða við foreldra sína um kynhneigð sína fékk hann slæmar viðtökur. Foreldrar hans neituðu að viðurkenna að sonur þeirra væri samkynhneigður og sökuðu hann um að „velja sér ranga kynhneigð.“

Fór að lokum svo, eftir langt rifrildi að þau ráku soninn burtu af heimili þeirra í Georgíu í Bandaríkjunum. Daniel ákvað svo í sumar að reyna að ræða við foreldrana, og ömmu sína, að nýju og fór að heimili þeirra. Hann grunaði að þau tækju honum illa, og tók hann því með sér falda myndavél til þess að taka upp það sem á milli þeirra færi. 

Myndbandið af samskiptum hans við foreldrana hefur síðan þá vakið mikla athygli. Hefst heiftarlegt rifrildi þar sem foreldrar hans saka hann aftur um að velja sér ranga kynhneigð. Hann reynir að útskýra fyrir þeim að hann hafi ekki valið sér kynhneigð, heldur sé hún hluti af því hver hann sé í raun og veru. Það vilja foreldrar hans ekki heyra minnst á. „Þú mátt tala um vísindi eins og þér sýnist, en ég mæli guðs orð,“ má heyra stjúpmóðir Daniels segja í myndbandinu. „Fyrst þú tókst þessa ákvörðun, þá höfum við engra kosta völ nema að henda þér út,“ bætir hún svo við. Rifrildið hófst eftir að Daniel hafði neitað að mæta á með foreldrum sínum til predikara, sem ætlaði að þeirra sögn að „losa hann við samkynhneigðina.“

Amman réðst á hann

Rifrildið verður æ háværara og að lokum fer svo að amma hans fer að slá Daniel, á meðan faðir hans öskrar ókvæmisorðum að honum. 

Eins og fyrr segir hefur myndbandið vakið mikla athygli, og fór svo að kærasti Daniels stofnaði söfnunarsíðu fyrir Daniel þar sem áhugasamir gátu styrkt þennan dreng sem var hent út af heimili sínu. Hefur söfnunarsíðunni nú verið lokað, en í stað þess er fólk hvatt til þess að styrkja samtökin Lost-N-Found, sem styðja við unga samkynhneigða, heimilislausa menn. 

„Þetta var erfiður tími fyrir mig og ég er afar þakklátur fyrir stuðninginn og óeigingirni fólks. Nú líður mér vel, ég er öruggur og ætla nú að ákveða með framhaldið,“ segir Daniel í samtali við Huffington Post

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert