Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, mun funda með utanríkisráðherrum víðsvegar að úr heiminum í París í dag þar sem rætt verður um baráttuna gegn samtökunum Ríki íslam. Um 40 lönd, þar á meðal 10 arabísk, hafa skrifað undir samkomulag um hernaðarsamstarf gegn Ríki íslam í Sýrlandi og Írak.
François Hollande, forseti Frakklands, segir að aftakan á breska hjálparstarfsmanninum um helgina sýni að heimurinn verði að bregðast við gegn Ríki íslam. Frakkar hafa sent herflugvélar af stað til Mið-Austurlanda til að styðja við loftárásir Bandaríkjahers á bækistöðvar Ríkis íslams í Írak. Hið sama hafa Bretar gert.