Eftirlifendur eins mannsskæðasta skipbrots síðari ára hafa nú stigið fram og lýst því hvernig smyglarar hvolfdu bát þeirra og skildu þá eftir til að drukkna. Hátt í fimm hundruð flóttamenn fórust með bátnum á miðvikudaginn undan ströndum Möltu, þar af hátt í hundrað börn, en förinni var heitið frá Egyptalandi til Ítalíu. Þetta kemur fram í upplýsingum IOM, stofnun Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með flótta fólks í leit að betri lífskjörum, sem birtar voru í dag.
„Eftir að þeir sigldu á bát okkar biðu þeir hlæjandi eftir því að vera fullvissir um að báturinn hefði örugglega sokkið,“ hefur IOM eftir einu fórnarlambinu.
Í upplýsingum IOM kemur meðal annars fram að níu einstaklingar hafi fundist, þemur dögum eftir atburðinn, hangandi á baujum úti á rúmsjó. Á meðal nímenninganna var tveggja ára stúlka, sem er enn í lífshættulegu ástandi á sjúkrahúsi á Krít, en einn nímenninganna hefur nú þegar látið lífið á sjúkrahúsi. Tveir Palestínumenn voru í hópi eftirlifenda og tjáðu þeir að báti þeirra hefði verið sökkt eftir að flóttamennirnir neituðu að færa sig yfir í smærri bát.
Smyglararnir, sem taldir eru hafa verið tíu talsins og frá Egyptalandi og Pelestínu, sigldu bát flóttamannanna niður en þeir sem náðu að bjarga sér yfir í smærri bátinn áttu sér einskis von þar sem þeir voru aftur neyddir í sjóinn og skildir eftir.
„Þegar siglt var á bátinn í fyrsta skiptið hengdi einn flóttamaðurinn sig í örvæntingu sinni,“ er haft eftir einu fórnarlambinu. Flóttamennirnir komu aðallega frá Sýrlandi, Palestínu, Egyptalandi og Súdan og höfðu húkt í átján metra löngum bátnum frá því 6. september, þrjú hundruð í þilfarinu og tvö hundruð undir berum himni.
„Hundruðin sem voru í þilfarinu lokuðust inni og drukknuðu samstundis. Eftirlifendurnir kveðast hafa horft upp á fólkið sem var ofar í bátnum, eða hafði komist yfir í smærri bátinn, vera hent í sjóinn þar sem það ríghélt í hvort annað til að halda lífi,“ segir auk þess í upplýsingum IOM.