Þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Skotar lýsi yfir sjálfstæði frá breska konungsdæminu fer fram á fimmtudag. Sökum þess er ekki úr vegi að rifja upp hvers vegna Skotar tóku upp ríkjasamband við England árið 1707, en það tryggði Skotum hlutdeild í vaxandi viðskiptum Englendinga á erlendri grundu.
Orri Páll Ormarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifaði eftirfarandi grein 2. nóvember 2008 og bar hún fyrirsögnina Glappaskotar. Í henni gerir Orri Páll grein fyrir því hvers vegna Skotar tóku upp ríkjasamband við England árið 1707, samband sem gæti verið að renna skeið sitt á enda.
Hvernig getur útrás sem borin er uppi af örfáum kaupsýslumönnum skilið efnahag heillar þjóðar eftir í kalda koli? Þessi spurning brennur á okkur Íslendingum þessa dagana. Þetta er þó ekkert einsdæmi í mannkynssögunni. Skotar lentu í keimlíkum hremmingum fyrir um þremur öldum. Sagan hefur sannarlega þann leiða vana að endurtaka sig.
Efnahagur Skotlands átti bágt á ofanverðri sautjándu öld. Hagkerfi landsins var lítið og útflutningur takmarkaður, Skotar áttu fátt sem aðrar þjóðir girntust. Þar að auki voru þeir í veikri pólitískri stöðu gagnvart stórveldunum í Evrópu, þeirra á meðal nágrönnum sínum, Englendingum. Tollaveggir risu og Skotar áttu vont með að fóta sig í vaxandi samkeppni á sviði viðskipta í álfunni. Ekki bætti uppskerubrestur síðustu árin fyrir aldamótin 1700 úr skák og hungursneyð braust út. Það er ekki að ósekju sem Skotar kalla þetta skeið í sögu sinni „ólánsárin“.
Í þessu ljósi kemur ekki á óvart að þessi stolta og metnaðarfulla þjóð hafi tekið efnahag sinn til gagngerrar endurskoðunar. Ein hugmyndin sem leiða átti landið út úr ógöngunum var að setja á laggirnar svokallað Skotlandsfélag sem efna átti til viðskipta við Afríku og Indíur. Var félaginu lagt til almannafé.
Eftir stuttar þreifingar hleypti Skotlandsfélagið af stokkunum svokölluðu Darién-verkefni. Snerist það um að stofna nýlendu í samnefndu héraði í Panama og freista þess að efna til viðskipta við Austurlönd fjær. Þetta var sama hugmyndin og löngu síðar leiddi til gerðar Panamaskurðarins. Auðveldlega gekk að afla fjár vegna verkefnisins, m.a. í Lundúnum. Yfirvöld í Englandi lögðust þó gegn því þar sem þau stóðu í stríði við Frakka og vildu ekki styggja Spánverja sem gert höfðu tilkall til svæðisins. Enskir fjárfestar neyddust því til að draga sig í hlé.
Skotlandsfélagið stóð eigi að síður uppi með um fjörutíu milljónir punda á núvirði. Jafngilti það á þeim tíma fimmtungi efnahags landsins.
Fyrsti leiðangurinn, fimm skip með um 1.200 manns innanborðs, lét í haf frá Leith 14. júlí 1698. Ferðin gekk vel og náðu maður og mús landi í Darién-héraði á Panama 2. nóvember sama ár eftir viðkomu á svonefndri Gulleyju. Það er kaldhæðið, almættið? Landnemarnir gáfu hinum nýju heimkynnum sínum nafnið Nýja-Kaledónía.
Skotarnir tóku til óspilltra málanna, gerðu skipaskurði og reistu oddvitarnir sér mikið virki í nafni heilags Andrésar, þar sem þeir höfðu yfir fimmtíu fallbyssum að ráða. Í nágrenni virkisins var komið upp kofahverfi fyrir almúgann. Ræktaðir voru sætuhnúðar og maís.
En Adam var ekki lengi í Paradís. Illa gekk að ná tökum á ræktinni og innfæddir í Darién-héraði sýndu uppsprettunni engan áhuga enda þótt þeir tækju hinum nýju nágrönnum sínum að öðru leyti með kostum og kynjum.Til að bæta gráu ofan á svart harðbannaði Vilhjálmur III Englandskonungur nýlendum sínum í Ameríku að sjá Skotunum fyrir aðföngum af ótta við reiði Spánverja.
Verkefnið var dæmt til að mistakast og við þessar kæfandi aðstæður byrjuðu landnemarnir að týna lífi. Náði mannfallið hámarki vorið 1699 þegar sótthita laust niður. Innfæddir lögðu sig í líma við hjúkrun en allt kom fyrir ekki.
Í júlí 1699 yfirgáfu Skotar Nýju-Kaledóníu fyrir fullt og allt, átta mánuðum eftir að þeir námu þar land. Aðeins eitt skip sneri aftur til Skotlands með 300 manns um borð.
Til allrar ógæfu skolaði fréttum af óförum landnemanna í Panama ekki á land í Skotlandi fyrr en eftir að annar leiðangur hafði ýtt úr vör. Hans biðu sömu örlög.
Darién-ævintýrið hafði voveiflegar afleiðingar fyrir Skota og er talið vera ein helsta ástæðan fyrir því að ríkjasamband við England var tekið upp árið 1707. Hermt er að Skotar hafi gert sér grein fyrir því að þeir yrðu aldrei stórveldi upp á eigin spýtur og þá væri skynsamlegast að tryggja sér hlutdeild í vaxandi viðskiptum Englendinga á erlendri grundu og auknum umsvifum breska heimsveldisins.
Frómt frá sagt rambaði Skotland á barmi gjaldþrots eftir sneypuförina og þurftu yfirvöld að fara á hnén til að biðja Westminster um að þurrka út skuldir þjóðarinnar og gera gjaldmiðilinn stöðugan á ný. Og það var ekki bara þjóðarbúið sem maraði í kafi, fjöldi einstaklinga hafði fjárfest í Darién-verkefninu og sleikti sárin. Niðurstaðan var sú að í sambandslögunum árið 1707 var ákvæði þess efnis að Englendingar greiddu Skotum ámóta upphæð og varið hafði verið til verkefnisins í upphafi til að vega upp á móti skuldbindingum þeirra. Það fé var að hluta notað til að greiða fjárfestum í Darién-verkefninu bætur.
Bara að Englendingar væru jafn almennilegir í dag!