„Snýst um ást á barni“

Danska lögreglan
Danska lögreglan Wikipedia/Heb

Einn lést og annar er í lífshættu eftir að maður hóf skothríð í fógetarétti í Kaupmannahöfn í morgun. Árásarmaðurinn var handtekinn en Søren Axelsen, dómsforseti, segir að fyrirtaka í forræðismáli hafi verið í gangi í réttarsalnum. „Þetta snýst um ást á barni og það gerir þetta enn skelfilegra,“ segir Axelsen í samtali við tv2.dk.

Árásin var gerð um tíuleytið að staðartíma í morgun í fógeta- og skiptarétti í miðborg Kaupmannahafnar. Samkvæmt fréttum danskra fjölmiðla skaut maðurinn bæði inni í réttarsalnum sem og utan hans en morðvopnið er afsöguð haglabyssa. Morðinginn reyndi að flýja af vettvangi en var handtekinn skömmu síðar skammt frá Ráðhústorgi.

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 16 í dag að staðartíma, klukkan 14 að íslenskum tíma.

Yfirmaður dómstólaráðs í Kaupmannahöfn, Michael Villemoes Larsen, segir í samtali við Politiken að verið sé að fara yfir myndbandsupptökur þar sem fólk sést flýja skelfingu lostið út úr dómshúsinu við  Hestemøllestræde. Hann segir að ekki sé til upptaka úr sjálfum réttarsalnum en upptaka var í gangi í biðsalnum þar fyrir utan. Þar sést hvar fólkið er að flýja undan skotárásinni.

Afinn myrti lögmanninn og særði barnsföðurinn lífshættulega

 Axelsen segir í samtali við tv2.dk að fyrirtaka í forræðismáli hafi staðið yfir í réttarsalnum en sá sem lést var lögmaður í málinu. Sá særði er faðir barnsins sem málið snýst um. Hann er lífshættulega særður og með skotsár víða um líkamann.

Tv2.dk hefur fengið það staðfest úr mörgum áttum að fórnarlambið sem lést hafi verið lögmaður í málinu en um er að ræða forræðisdeilu í kjölfar skilnaðar. Samkvæmt heimildum Tv2 er árásarmaðurinn afi barnsins en hann hafði falið byssuna í tösku sem hann var með í réttarsalnum. 

Lögreglan er mjög áberandi allt í kringum dómshúsið samkvæmt frétt Berlingske og hafa verið settir upp vegatálmar víða. Lögregla hefur rætt við fjölmörg vitni sem eru öll í áfalli, segir í Jyllands-Posten en blaðamaður JP var á svæðinu þar sem árásin var gerð í morgun.

Móðir barnsins mætti sjálf ekki í réttarsalinn í morgun en sendi föður sinn í sinn stað og virðist sem hann sé árásarmaðurinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert