Bandaríski hershöfðinginn Martin Dempsey segir að það komi til álita að bandarískir hernaðarráðgjafar veiti íraska hernum liðsinni í árásum sem verði gerðar á liðsmenn samtakanna Ríki íslam.
Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að senda mörg hundruð hernaðarráðgjafa til viðbótar til Íraks í tengslum við hernaðaráætlun sem beinist gegn samtökunum, sem Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, greindi frá í síðustu viku. Þetta kemur fram á vef BBC.
Fyrr í dag gerði Bandaríkjaher sína fyrstu loftárás samkvæmt áætluninni, en markmið hennar er að gera út af við Ríki íslam. Liðsmenn samtakanna hafa náð stórum svæðum í Írak og í Sýrlandi á sitt vald, en þeir vilja setja á fót sérstakt kalífadæmi.
Dempsey segir að bandarísku hernaðarráðgjafarnir muni aðstoða Íraksher við að skipuleggja árásir á samtökin. Dempsey upplýsti um þetta er hann svaraði spurningum varnarmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings.
Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sat einnig fyrir svörum. Hann sagði að Bandaríkin stæðu í stríði við Ríki íslam og hryðjuverkasamtökin al-Qaeda.