Spennan í algleymingi í Skotlandi

Spennan er í algleymingi fyrir komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Samkvæmt nýjustu könnunum eru sambandssinnar með naumt forskot á sjálfstæðissinna. 50% ætla að hafna sjálfstæði en 45% styðja það.

Ef óákveðnir eru teknir út úr jöfnunni þá segja 52% nei við sjálfstæði en 48% já. að því er fram kemur á vef breska blaðsins Guardian. Ljóst er að framtíð landsins er í höndum þeirra sem eru enn ekki búnir að gera upp hug sinn.

Meðal þeirra sem vilja að Skotland verði áfram hluti af breska samveldinu er Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Hann hvatti Skota í dag til að hafna sjálfstæði því að sú niðurstaða myndi leiða til öruggari, hraðari og betri breytinga. 

„Við munum sigra,“ sagði Brown, sem er skoskur, á fundi með sambandssinnum í dag. Alistari Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, og breski grínistinn Eddir Izzard komu einnig fram á fjöldafundinum. 

Brown minnti á söguna og sagði að Skotar og Englendingar hafi í sameiningu barist í tveimur styrjöldum. Hann benti á, að í Evrópu sé ekki að finna grafreit þar sem Skotar, Írar, Walesverjara og Englendingar liggja ekki hlið við hlið. 

„Þegar þeir börðust í sameinginu þá spurðu þeir aldrei hvern annan hvaðan þeir kæmu,“ sagði Brown fullur eldmóðs.

Undanfarna mánuði hafa sambandssinnar verið með forskot í skoðanakönnunum. Sjálfstæðissinnar hafa aftur á móti sótt í sig veðrið á síðastliðinum vikum. Fréttaskýrendur segja að Brown hafi hleypti nýju blóði í baráttu þeirra sem vilja að Skotland verði áfram hluti af Bretlandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert