Skotar ganga í dag til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Skotland eigi að verða sjálfstætt ríki eða vera áfram hluti af breska konungdæminu. Kjörstaðir opnuðu í morgun og er búist við metþátttöku í kosningunum samkvæmt frétt AFP. Kjörstaðir verða opnir til klukkan 21:00 í kvöld að íslenskum tíma og niðurstöðurnar gæti legið fyrir snemma í fyrramálið segir í fréttinni.
Samtals eru um 4,3 milljónir manna á kjörskrá og er búist við allt að 80% kosningaþáttöku. Spurningin sem lögð verður fyrir kjósendur er svohljóðandi: „Should Scotland be an independent country?“ Eða: „Á Skotland að verða sjálfstætt ríki?“ Kjósendur annað hvort svarað því játandi eða neitandi.
Skoðanakannanir sýna að niðurstaðan gæti orðið á hvorn veginn sem er. Fylkingar sjálfstæðissinna og sambandssinna eru nær hnífjafnar. Sambandssinnar hafa þó í síðustu könnunum verið með mjög tæpan meirihluta. Skotland hefur verið hluti af breska konungdæminu í rúmar þrjár aldir eða allt frá árinu 1707.