Múslímar í Þýskalandi héldu bænadag og fjöldafundi í dag til þess að fordæma íslamska öfgahópa og aðgerðir þeirra.
Um 2000 moskur í Þýskalandi tóku þátt í viðburðinum sem hét „Múslímar gegn hatri og óréttlæti“ en hann var skipulagður af fjórum stærstu hópum múslíma í landinu ásamt ráðherrum ríkisstjórnarinnar, fulltrúum kristna og gyðinga og borgarstjórum borganna sem tóku þátt.
Í Berlín tóku þúsundir þátt í bænafundi undir berum himni í hverfinu Kreuzberg. Í kjölfarið hófst fjöldafundur þar sem ræðumenn fordæmdu ofbeldi í nafni íslam.
„Við höfum séð fólk fremja grimmdarverk, pyntingar, fæla fólk frá heimilum sínum og myrða fólk í nafni Allah,“ sagði í yfirlýsingu sem lesin var upphátt í moskum útum allt Þýskaland í dag.
„Þeir starfa undir nafni spámannsins en glæpir þeirra sýna að þeir skilja ekki eitt orð sem Allah sagði og hvernig spámaðurinn okkar lifði eftir boðorðum sínum.
Jafnframt kom fram í yfirlýsingunni að samfélag múslíma í Þýskalandi óttaðist að gjörðir vígahópa hafi slæm áhrif á orðspor trúarinnar og veki upp hatur gegn íslam og múslímum.
„Það hefur verið ráðist á moskur í Þýskalandi og kveikt í þeim,“ sagði m.a. í yfirlýsingunni en síðustu tvö ár hafa verið tilkynnt 80 atvik þar sem ráðist er á moskur í Þýskalandi.
Aiman Mazyek, formaður miðráðs Múslíma í Þýskalandi sagði að múslímar í landinu vilji taka skýra aðstöðu til þeirra voðaverka sem framin eru í Írak og Sýrlandi í nafni íslam.
„Þetta eru hryðjuverkamenn og morðingjar sem draga íslam með þeim í svaðið og bera hatur og þjáningar til fólks, þar á meðal annarra múslíma,“ skrifaði Mazyek í dagblaðið Bild.
„Við viljum að það sé ljóst að meirihluti múslíma í þessu landi og í heiminum öllum hugsa og lifa öðruvísi en þeir. Íslam er friðsælt trúarbragð.“