„Skotland hefur ákveðið, á þessu stigi, að gerast ekki sjálfstætt ríki,“ sagði Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands, þegar úrslitin í þjóðaratkvæðinu lágu fyrir. Kvaðst Salmond una niðurstöðunni en hann leiddi baráttu sjálfstæðissinna.
Þegar talningu í 30 sýslum af 32 var lokið höfðu sambandssinnar fengið meirihluta atkvæða og allt benti til að sjálfstæði væri hafnað með 55% atkvæða gegn 45%.
Þegar aðeins var eftir að telja í einu kjördæmi af 32 höfðu 1.914.187 manns greitt áframhaldandi veru í breska konungdæminu atkvæði sitt en 1.539.920 vali ðsjálfstæði Skotlands. Þar með voru úrslit fengin því til að sigra þurfti 1.852.828 atvkæði.
Eru niðurstöðurnar þær að 55,42% Skota vilja áfram vera þegnar Elísabetar drottningar en 44,58% eru því mótfallnir. Kjörsókn mældist 84,4%.
Með þjóðaratkvæðinu lýkur tveggja ára baráttu sjálfstæðissinna fyrir að fá að tjá hug sinn til framtíðar Skotlands og segja fréttaskýrendur þá náð því fram, að Skotland muni fá aukinn sess í konungdæminu hér eftir.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagðist í morgun hafa rætt við Salmond og hrósað honum fyrir öfluga kosningabaráttu.