Birta annað myndskeið með gíslinum

John Cantlie,
John Cantlie, AFP

Samtökin Ríki íslam hafa birt nýtt myndskeið með breska blaðamanninum John Cantlie, sem er í haldi samtakanna. Innan við vika er síðan annað myndskeið með honum var birt en Cantlie var rænt í Sýrlandi árið 2012.

Cantlie er í appelsínugulum búningi í myndskeiðinu og segir hann að bresk yfirvöld hafi brugðist sér. Ríki íslam nefur tekið af lífi þrjá gísla að undanförnu og í myndskeiði sem sýnir aftöku á Bretanum David Haines hóta samtökin því að næsta fórnarlamb sé Alan Henning. 

John Cantlie er þrautþjálfaður blaðamaður og ljósmyndari og er þetta í annað skiptið sem honum er haldið föngnum í Sýrlandi. Honum var rænt í júlí 2012 og haldið hlekkjuðum og bundið fyrir augun í viku. Liðsmenn stjórnarandstöðunnar komu honum til bjargar á þeim tíma. Hann sneri aftur til Sýrlands undir lok árs 2012 og var þá rænt að nýju. 

Myndskeiðið nú, sem var sent eftir að loftárásir Bandaríkjahers og bandamanna hófust í nótt, er á svipuðum nótum og fyrra myndskeiðið. Þar gagnrýnir hann harðlega aðgerðir vestrænna ríkja gegn Ríki íslam og að þau vanmeti mátt samtakanna.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert