Gerðu árásir á olíuvinnslustöðvar

Bandaríkin gerðu loftárásir með stuðningi Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Bandaríkin gerðu loftárásir með stuðningi Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. AFP

Loftárásir Bandaríkjahers á liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í Sýrlandi héldu áfram í kvöld, en herþotur frá Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum tóku einnig þátt í árásunum. Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir að m.a. hafi verið skotið á olíuvinnslustöðvar sem samtökin höfðu náð á sitt vald.

Bandarísk stjórnvöld fara fyrir aðgerðunum gegn samtökunum, en þetta er í fyrsta sinn sem ráðist er á olíuvinnslustöðvar í austurhluta Sýrlands. Tilgangurinn er að höggva skarð í eina helstu tekjulind hryðjuverkasamtakanna, en þau reiða sig á sölu á hráolíu sem er smyglað til milligöngumanna í Tyrklandi, Írak, Íran og í Jórdaníu.

Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, varaaðmírállinn John Kirby, sagði í samtali við CNN, að ráðist hafi verið á 12 skotmörk í austurhluta Sýrlands þar sem liðsmenn Ríkis íslams ráða yfir litlum olíuhreinsistöðvum.

Kirby segir flugskeytum hafi verið skotið á stöðvarnar. Þá staðfesti hann að herþotur frá Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum hefðu tekið þátt í loftárásunum. 

Samtökin eru vel fjármögnuð og hafa náð nokkrum olíusvæðum á sitt vald.

Fréttaskýrendur segja að samtökin starfi eins og skipulögð glæpasamtök. Þau fjármagni sig með ýmsum hætti, m.a. með því að ræna fólki og krefjast lausnargjalds, beita fjárkúgunum og fremja rán. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert