Samtökin Ríki íslam eru á allra vörum þessa dagana og efast fáir um hversu öflug hryðjuverkasamtökin eru en þau hafa sölsað undir sig stór landsvæði í Írak og Sýrlandi á einungis nokkrum mánuðum.
Blaðamaður Berlingske bendir á að þau séu hins vegar afar ólík öðrum hryðjuverkasamtökum. Þar skipti miklu hvernig þau kynna sig, meðal annars á samfélagsmiðlum og eru dugleg að koma áróðri sínum á framfæri.
Thomas Elkjer Nissen, sérfræðingur í hernaðartækni, bendir á í viðtali við Berlingske í dag að öllum brögðum sé beitt í áróðursstríði Ríki íslam, á sama tíma og samtökin sendi frá sér myndskeið sem sýni hrottalegar misþyrmingar á föngum og aftökur þá birti þau einnig myndir sem sýni mannlega hlið, brosandi skæruliðar sem borða pizzur og klappa kettlingum.
Venjulegt fólk sem ungt fólk á auðveld með að finna samsvörun með. Samtökin halda meira að segja úti Twitter-reikningi sem er helgaður myndum af góðri sambúð vígamanna samtakanna og kettlinga.
Síðastliðinn sunnudag sendu samtökin frá sér áróðursmynd, 55 mínútna langa, þar sem starfseminni og tilgangi samtakanna var lýst.
Karsten Fledelius, lektor með sérhæfingu í áróðursmyndum, segir í samtali viðBerlingske að myndin sé ekkert annað en áróður og allt bendi til þess að þeir sem hafi gert myndina hafi numið við evrópska eða bandaríska kvikmyndaskóla.
Fledelius efast ekki um að myndinni sé ætlað að heilla unga vestræna múslíma til þess að taka þátt í hernaði Ríki íslam. En talið er að um þrjú þúsund evrópskir múslímar séu farnir til Sýrlands og Íraks að taka þátt í hernaði Ríki íslam.