Öryggisráð SÞ grípur í taumana

Frá fundi öryggisráðs SÞ í kvöld.
Frá fundi öryggisráðs SÞ í kvöld. AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt bindandi ályktun sem knýr aðildarríki SÞ til að koma í veg fyrir að ríkisborgarar gangi í raðir herskárra íslamista í Írak og Sýrlandi.

Ályktunin var samþykkt samhljóða, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, stýrði fundi ráðsins í dag og sagði að þjóðir yrðu að koma í veg fyrir nýliðun og fjármögnun til erlendra vígamanna.

Fyrr í dag ávarpaði Obama allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og hvatti heims­byggðina til að leggja hönd á plóg í bar­átt­unni gegn hryðju­verka­sam­tök­un­um sem kalla sig Ríki íslam, sem hann kall­ar „sam­tök dauðans“.

Banda­rísk­ar og arabískar herþotur hafa gert fleiri loft­árás­ir á skot­mörk í Írak og í Sýr­landi sem tengj­ast sam­tök­un­um.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að þjóðir heims verði að kljást við öfgamenn í allri sinni mynd. Banna verði þá sem breiða út hatursboðskap og berjast verði gegn „eitraðri hugmyndafræði“.

Hann sagði á fundi öryggisráðsins, að stríðsátökin í Írak og Sýrlandi hafi orðið til þess að ungt fólk frá velmegandi ríkjum gangi til liðs við uppreisnarhópa. 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, á fundi öryggisráðsins í kvöld.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, á fundi öryggisráðsins í kvöld. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert