Blátt bann við fóstureyðingum í El Salvador undanskilur ekki barnungar stúlkur sem verða þungaðar í kjölfar nauðgunar. Þannig var tíu ára gömul stúlka sem sætt hafði kynferðisofbeldi og orðið þunguð neydd til að ganga fulla meðgöngu og ala barnið.
Amnesty International hefur gefið út skýrslu um fóstureyðingabannið í El Salvador og er meginniðurstaða hennar sú að á hverju ári sé brotið á mannréttindum hundruð kvenna og stúlkna í El Salvador en fortakslaust bannið var bundið í landslög árið 1998.
„Blátt bann við fóstureyðingum þýðir að konur og stúlkur eru saknæmar í öllum tilvikum leiti þær slíkrar aðgerðar, jafnvel þótt lífi eða heilsu þeirra er ógnað, þungun er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells eða fóstrið ekki lífvænlegt,“ segir í tilkynningu frá Amnesty.
Lögin neyða allar konur og stúlkur, óháð aldri, til að ganga fulla meðgöngu jafnvel þótt slíkt hafi gjöreyðandi áhrif á andlega og líkamlega velferð þeirra. Læknir sem meðhöndlaði tíu ára gamla þungaða stúlku sem sætt hafði nauðgun sagði Amnesty International eftirfarandi: „Við þurftum að meðhöndla níu ára gamla stúlku sem var þunguð og ól barn aðeins tíu ára. Hún hafði sætt kynferðislegri misnotkun frá því hún var kornabarn. Hún varð ólétt. Þetta var hrikalega erfitt mál... það endaði með keisaraskurði á 32 viku meðgöngu... Þetta tilfelli setti mark sitt á okkur öll kannski vegna þess að hún skildi ekki hvað var að gerast fyrir hana... hún bað okkur um liti, Crayon liti og hóf að teikna mynd af okkur öllum og hengdi upp á spítalavegginn. Hjarta okkar sökk af sorg. Hún er bara lítið barn, lítið barn! Hún skildi ekki að hún ætti sjálf von á barni.“
„Hið ómannúðlega, fortakslausa bann við fóstureyðingum í El Salvador leiðir til dauða hundraða kvenna og stúlkna í El Salvador á ári hverju og leggur líf enn fleiri í rúst. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni lætur 11% stúlkna og kvenna lífið í kjölfar ólöglegra fóstureyðinga í El Salvadorog57% allra dauðsfalla hjá þunguðum unglingsstúlkum á aldrinum 16-19 ára orsakast af sjálfsvígi,“ segir ennfremur í tilkynningunni.