Afhöfðaði fyrrum samstarfskonu sína

AFP

Maður í Oklahoma í Bandaríkjunum afhöfðaði konu og særði aðra eftir að hafa verið rekinn úr starfi sínu. Maðurinn, sem heitir Alton Nolen og er þrítugur, réðst á konurnar tvær í verksmiðju dreifiaðilans Vaughn Foods í bænum Moore í Oklahoma seinnipartinn í gær. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, sem er einnig lögreglumaður, stoppaði árásina með því að skjóta og særa Nolen.

Talsmaður lögreglunnar á svæðinu sagði bandarísku alríkislögregluna (FBI) nú rannsaka bakgrunn Nolens, eftir að vinnufélagar hans sögðu hann hafa reynt að snúa þeim yfir til íslamstrúar. Samkvæmt lögreglunni virðist árásin vera handahófskennd, en fyrr um daginn hafði Nolen verið rekinn úr vinnu sinni í verksmiðjunni.

Að sögn lögreglu reiddist Nolen og strunsaði út í bíl sinn sem lagður var fyrir utan verksmiðjuna. Þá keyrði hann að aðalinnganginum, og klessti aðra bíla í leiðinni. Eftir það gekk Nolen inn aðalinnganginn að skrifstofu þar sem hann réðst á fyrra fórnarlamb sitt, 54 ára gömlu Colleen Hufford, með hníf.

„Á meðan á árásinni stóð afhöfðaði Nolen fórnarlamb sitt,“ sagði lögreglan.

Þar næst réðst Nolen á seinna fórnarlamb sitt, 43 ára gömlu Traci Johnson, með sama hníf. „Það virðist vera að þær hafi staðið í vegi hans þegar hann kom inn,“ sagði Jeremy Lewis, varðstjóri hjá lögreglunni á svæðinu.

Framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, Mark Vaughn, sem einnig er lögreglumaður, stoppaði árásina þegar hann skaut á Nolen. „Lögreglumaðurinn bjargaði lífi Traci,“ sagði Lewis.

Nolen og síðara fórnarlamb hans voru bæði færð á sjúkrahús og er ástand þeirra stöðugt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert