Hún var lengi vel átrúnaðargoð ungra kvenna og fékk hné margra karlmanna til að skjálfa. Velferð dýra hefur átt hug hennar og hjarta lengi en síðustu árin hefur barátta gegn samkynhneigðum og innflytjendum bæst á listann. Franska leikkonan og aðgerðarsinninn Brigitte Bardot er áttræð í dag.
Bardot var eitt helsta kyntákn sjötta og sjöunda áratugarins og nú hálfri öld síðar hefur hún enn gríðarleg áhrif á tískuhönnuði um allan heim. En henni er nákvæmlega sama enda langt síðan hún forðaði sér úr kastljósi tískunnar og sýndarveruleikans yfir í þann heim sem skiptir hana mun meira máli - að vernda málleysingja sem ekki geta gert það sjálfir þegar maðurinn herjar á þá.
Brigitte Anne-Marie Bardot fæddist þann 28. september 1934 í París. Hún kemur úr millistéttarfjölskyldu og hvatti móðir hennar hana og yngri systur hennar, Marie-Jeanne, til þess að læra dans. Marie-Jeanne gafst upp á dansinum en Brigitte æfði ballett lengi vel og þótti mjög efnileg.
Á forsíðu Elle fimmtára gömul
Hún fór að taka þátt í tískusýningum snemma á unglingsárunum og þegar Bardot var fimmtán ára var hún komin á forsíðu Elle tímaritsins. Myndin fangaði athygli kvikmyndaleikstjóra og var henni boðið hlutverk í sinni fyrstu kvikmynd í kjölfarið. Myndin varð að vísu aldrei að veruleika en leiðin var orðin ljós sem beið hennar.
Fyrsta myndin sem Bardot lék í var frumsýnd árið 1952 en hún lék í nokkrum gamanmyndum áður en hún varð heimsfræg árið 1956 fyrir hlutverk sitt í myndinni Og Guð skapaði konuna (f. Et Dieu créa la femme). Myndin var í leikstjórn Roger Vadim en þau gengu í hjónaband 1952.
Í myndinni leikur Bardot unga konu sem lifir frjálslyndu lífi í suðrænu borginni St. Tropez. Myndin varð ekki síst þekkt fyrir nektarsenur og erótík án þess að vera klámfengin. Bardot varð í kjölfarið eitt helsta kyntákn og leikkona Evrópu en hún var afar vinsæl af ljósmyndurum sem fylgdu henni hvert fótmál í þeirri von að fanga hana á mynd.
Meðal þekktra mynda sem Bardot lék er mynd Jean-Luc Godard, Le Mépris árið 1963 og síðar hún tilnefnd til BAFTA verðlaunanna fyrir hlutverk sitt í kvikmynd Louis Malle, Viva Maria!.
Reyndi að fremja sjálfsvíg á afmælisdaginn
Brigitte Bardot og Vadim skildu árið 1957 en unnu áfram saman. En þrátt fyrir frægð og frama var lífið ekki alltaf jafn gott að mati leikkonunnar. Hún reyndi að fremja sjálfsvíg á afmælisdaginn sinn árið 1960 er hún varð 26 ára gömul. Síðar lýsti hún martröðum sem fylgja frægðinni, að vera almenningseign og kröfuna um að viðhalda einhverri ímynd sem er ekki endilega þín eigin.
Undir lok sjötta áratugarins gekk Bardot í hjónaband með leikaranum Jacques Charrier, og í janúar 1960 eignuðust þau soninn Nicolas-Jacques Charrier. Þegar þau Bardot og Charrier skildu árið 1962 fylgdi sonurinn föður sínum og var samband hans og Bardot afar takmarkað fyrr en hann var kominn á fullorðinsár.
Hún gekk í hjónaband með þýska milljarðamæringnum Gunter Sachs árið 1966 en þau skildu þremur árum síðar. Þrátt fyrir skilnaðinn voru þau miklir vinir áfram en hann var af bílafjölskyldunni Opel. Sachs framdi sjálfsvíg árið 2011, 78 ára að aldri.
Bardot átti marga elskhuga í gegnum tíðina, hvort sem hún var gift eður ei, en hún gekk ekki í hjónaband að nýju fyrr en 1992 er hún giftist stjórnmálamanninum Bernard d'Ormale sem var lengi vel hægri hönd stofnanda þjóðernisöfgaflokksins Front National, Jean-Marie Le Pen.
Eftirlæti de Beuvoir
En það voru ekki bara aðdáendur fræga fólksins sem heilluðust að Bardot því menningarelítan franska gerði sér grein fyrir því að það var mikið spunnið í þessa ungu konu. Hún var fyrirmynd Simone de Beuvoir í ritverkinu The Lolita Syndrome árið 1959. Þar er Bardot lýst sem hreyfiafli í kvennasögunni - fyrsta frjálslynda konan í Frakklandi eftir seinni heimstyrjöld.
Bardot hætti að starfa við afþreyingariðnaðinn árið 1973 eftir að hafa leikið í 47 kvikmyndum, komið fram í nokkrum söngleikjum og tekið upp yfir sextíu lög. Hún fékk frönsku heiðursorðuna Legion de Honour árið 1985 en neitaði að taka við henni úr hendi forsetans.
Eftir að hafa farið á eftirlaun frá afþreyingariðnaðinum tæplega fertug hefur hún einbeitt sér að verndun dýra. Á síðustu áratugum hefur annað áhugamál bæst í hópinn, barátta gegn íslam í Frakklandi og öðrum baráttumálum Front National sem beinist meðal annars gegn innflytjendum, samkynhneigðum, skattkerfinu og ýmsu sem flokkurinn tekur að mætti betur fara í frönsku þjóðlífi.
„Hún var fáránlega fræg“
„Hún var átrúnaðargoð kynslóða kvenna,“ segir Marie-Dominique Lelievre, höfundur ævisögu Bardot, BB, sem kom út nýverið.
„Hún var fáránlega fræg og goðsögnin varð sífellt meiri vegna þess hversu ung hún hætti - eða fyrir fertugt,“ bætir Lelievre við í viðtali við AFP-fréttastofuna í liðinni viku.
En það voru ekki bara Evrópubúar sem voru heillaðir að Bardot því í myndinni Og Guð skapaði konuna féllu margir Bandaríkjamenn fyrir dansi hennar og kynþokka sem einkenndi hana á hvíta tjaldinu. En mörgum fannst þetta ganga of langt, þykkar varir leikkonunnar, vöxtur sem minnti á stundarglas og frjálsleg framkoma, var of mikið fyrir þá sem fylgdu þeim siðferðisgildum sem voru uppi á sjötta áratug síðustu aldar.
En eins og Vadim lýsti henni einn sinn þá var þetta Bardot eðlislægt: Brigitte var fyrirmynd annarra ungra kvenna, laus við fyrirfram gefna fordóma samfélagsins og án samviskubits yfir einhverju sem ekki skipti máli.
Hræðilegt að eldast og fólk hreinlega drepst úr leiðindum
Í nýlegu viðtali við AFP fréttastofuna segir Bardot það hræðilegt að eldast, það sé eiginlega spurning um að fólk hreinlega drepist úr leiðindum. Hún reynir sjálf að koma í veg fyrir að drepast úr leiðindum með því að leggja sitt af mörkum til að vernda seli, fíla og flækingsrakka.
Eins berst hún gegn samkynhneigðum og innflytjendum. Sú barátta hefur kostað hana fimm dóma fyrir rasistaníð.
Það er óvíst að hún láti það nokkuð stöðva sig ef marka má lýsingu femínistans Simone de Beauvoir á Bardot á sínum tíma en að sögn de Beauvoir hikaði Bardot ekki við að mæta berfætt þegar ætlast var til þess að hún væri huggulega til fara, hlaðin skartgripum, máluð og vel lyktandi. „Hún gerir það sem hún vill og það er það sem er svo pirrandi.“
Sögusagnir herma að Bob Dylan hafi ort sitt fyrsta lag um Bardot þegar hann var aðeins unglingur og John Lennon á að hafa verið svo stressaður þegar hann fór að hitta hana í fyrsta skipti að hann tók ofskynjunarlyfið LSD áður.
Áhrif hennar liggja enn víða. Til að mynda er eiga Kate Moss, Claudia Schiffer, Kylie Minogue og Madonna allar að hafa horft til Bardot þegar þær sköpuðu sér sína ímynd.
Diane Von Furstenberg vísaði til ímyndar Bardot á tískusýningu í New York fyrr í mánuðinum og voru fyrirsæturnar klæddar í röndótta boli, hvíta og bláa, ballerínuskó og minntu þær í útliti margt á gömlu goðsögnina. En Bardot gefur lítið fyrir heim fræga og ríka fólksins enn í dag og segir lýtaaðgerðir fáránlegar. „Goðsögn? Það er orðið sem ég hef setið uppi með en það þýðir ekki neitt,“ sagði Bardot í viðtali við Marie-Claire árið 2010.
En tveimur árum síðar, þegar hún var spurð í viðtali hvaða franska leikkona gæti leikið hana var svarið: „Engin. Það gæti engin leikið mig. Það sem þær skortir er persónuleiki minn.“
Virðing Bardot fyrir fólki, þá ekki síst eigin þjóð, er afar takmörkuð og virðist hún taka velferð dýra fram yfir mannfólkið.
Í bók sinni Le Carré de Pluton gagnrýnir Bardot þjóð sína og land: Land mitt Frakkland, heimaland mitt, land mitt hefur aftur orðið innrás að bráð, nú er það yfirgangur innflytjenda, einkum múslíma."
Í annarri bók, Un cri dans le silence, sem kom út árið 2003 varar hún við íslamvæðingu Frakklands og segir samkynhneigða karlmenn hegða sér eins og markaðsvædd viðundur. Nútímalistir fá svipaða útreið þar sem hún líkir samtímalistaverkum við skít og ekki eru franskir stjórnmálamenn hótinu skárri að hennar mati enda hafi þeir ekki gert annað en að færa útlendingum landið á silfurfati. Múslímar séu að eyðileggja Frakkland og troða sínum gildum upp á frönsku þjóðina.