Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir tímabært að bæta samskipti Rússlands og Bandaríkjanna, en hann segir að ríkistjórn Obama Bandaríkjaforseta beri ábyrgð þeim slæmu samskiptum sem eigi sér stað í dag. Lavrov kallar eftir „endurstillingu 2,0“.
Hann var ráðherra þegar samskiptin voru „endurstillt“ árið 2010. Lavrov segir að núverandi stjórn Bandaríkjanna hafi framið skemmdarverk á samskiptum þjóðanna.
„Það er algjörlega í okkar þágu að bæta tengslin en við eyðilögðum þau ekki,“ sagði Lavrov í samtali við rússneska fréttastöð.
Bandaríkin fóru fyrir ríkjum sem beittu Rússa refsiaðgerðum vegna aðgerða þeirra í Úkraínu, en Rússa innlimuðu Krím fyrr á þessu ári og þá eru þeir sakaðir um að styðja við bakið á aðskilnaðarsinnum í austurhluta landsins. Rússar neita þessari ásökun.
Þá eru Rússar á öndverðum meiði en Vesturveldin hvað varðar stöðu mála í Sýrlandi.
Í júní árið 2010 staðfesti Obama endurbætt samskipti Rússa og Bandaríkjamanna á leiðtogafundi þegar þáverandi forseti Rússlands, Dimítrí Medvev, heimsótti Hvíta húsið.