Eldgosið í Ontake fjalli í Japan hefur vakið upp ótta gagnvart því að eitt af hinum 110 virku eldfjöllunumlandsins taki upp á því að gjósa fyrirvaralaust. Samkvæmt The Telegraph telja eldfjallasérfræðingar að hugsanlega sé vandræða að vænta frá Fuji fjalli (e. Mount Fuji).
Fuji fjall, eitt þekktasta kennileiti Japan, er að finna á lista Japönsku Veðurstofunnar yfir þau 47 eldfjöll sem mest hætta er á að gjósi. Fuji er aðeins 145 kílómetra frá höfuðborginni Tókýó og því gæti stórt gos úr fjallinu valdið miklum hörmungum og eyðileggingu.
Í júlí síðastliðnum gáfu franskir og japanskir vísindamenn út skýrslu þar sem varað var við miklum þrýstingi við Fuji í kjölfar jarðskjálftans í Tohoku árið 2011. Kom fram slíkan þrýsting mátti finna við fleiri eldfjöll en að óvenjulegustu jarðhræringarnar væri að finna við Fuji.
Fuji gaus síðast árið 1707, aðeins 49 dögum eftir Hoei jarðskjálftann sem var 8,7 á richter. Þá gaus af svo miklum krafti að glóandi hraunmolum ringdi yfir bæi við rætur fjallsins og Tókýó varð hulin ösku.
Rannsóknir hafa sýnt að líklegt sé að jafnvel meiri þrýstingur sé í kvikuþrónni undir fjallinu nú en árið 1707 og í skýrslu á vegum ríkisstjórnarinnar er varað við því að hátt í 750 þúsund manns gætu þurft að flýja heimili sín gjósi Fuji af sama krafti og þá. Talið er að margar af byggingum Tókýó myndu ekki þola öskuna og falla saman vegna þyngslanna. Einnig er varað við því að samgöngur með lestum frá Tókýó til Nagoya, Osaka og vesturhluta Japans myndu lamast vegna hraunflæðis og eins myndi aska hafa áhrif á flugsamgöngur.
Japanskir vísindamenn segja enga leið að vita hvenær og hvort fjallið gjósi þrátt fyrir náið eftirlit og raunar gæti það gerst án viðvörunnar. Sú var raunin með eldgosið í Otake sem hefur hirt meira en 40 mannslíf en enn á eftir að staðfesta tölu látinna.