Svíþjóð viðurkenni Palestínu

Loefven ræðir við fjölmiðla um Palestínu.
Loefven ræðir við fjölmiðla um Palestínu. AFP

Nýkjörinn forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Loefven, tilkynnti í dag að til standi að Svíþjóð viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt og fullvaldi ríki. Loefven sagði að Svíþjóð vildi hlúa að tveggja ríkja lausn á deilum Ísrael og Palestínu en tiltók ekki hvort kosið yrði um viðurkenninguna í sænska þinginu.

Yfirvöld í Bandaríkjunum segja viðurkenninguna ótímabæra en Palestínumenn fagna henni. Palenstínskir embættismenn segja Svía vera kjarkmikla og hafa hvatt önnur ríki Evrópusambandsins til að fara að þeirra fordæmi.

Svíþjóð er fyrsta Evrópusambandsríkið í Vestur-Evrópu til að viðurkenna sjálfsstæði Palestínu. Ísland viðurkenndi Palestínu árið 2011.

Nokkuð er á reiki hversu mörg lönd viðurkenni Palestínu sem fullvalda ríki. Fréttastofu AFP telst til að 112 ríki hafi viðurkennt Palestínu í dag en samkvæmt talningum Palestínumanna eru ríkin 134 og þar af 15 Evrópuríki.

Ísralesk stjórnvöld hafa enn ekki tjáð sig um málið enda hittir sænska yfirlýsingin friðþægingardag gyðinga - Yom Kippur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert