Jennifer Cramblett og Amanda Zinkon hafa krafið Midvest sæðisbankann í Illinois um 50 þúsund bandaríkjadali (rúmar 6 milljónir króna) í skaðabætur fyrir að hafa sent þeim sæði úr þeldökkum manni fyrir mistök. Þetta kemur fram á vef Chicago Tribune.
Parið hafði valið sæðisgjafann sérstaklega og átti hann m.a. að vera hvítur á hörund. Þegar Cramblett var komin nokkuð á leið hafði hún samband við sæðisbankann og bað um að tekið yrði frá meira af sæði fyrir skötuhjúin. Þá kom á daginn að barnið sem hún bar undir belti var hreint ekki getið með sæði sæðisgjafa nr. 380 sem þær höfðu valið heldur sæðisgjafa nr. 330 sem er dökkur á hörund.
Þær Cramblett og Zinkon segjast munu elska dóttur sína Peyton, sem nú er tveggja ára, sama hvað. Cramblett hefur hinsvegar áhyggjur af því að fjölskylda hennar og skólafélagar muni koma öðruvísi fram við Peyton en aðra.
Cramblett mun hafa alist upp í kringum fólk með fordómafullar hugmyndir gagnvart þeim sem ekki eru hvítir á hörund. Hún segist hafa þurft að læra margt á stuttum tíma og segir erfitt að ala Peyton upp í smábænum sem þær mæðgur búa í þar sem samfélagið þar sé fordómafullt.
Cramblett segist t.a.m. hafa þurft að ferðast í annað bæjarfélag til að láta klippa hár Peyton á hárgreiðslustofu sem rekin er af þeldökku fólki. Það segir hún hafa verið afar erfitt fyrir sig enda hafi hún fundið fyrir því að hún var óvelkomin á meðal þeirra.
Sálfræðingur Cramblett mun hafa ráðlagt henni að flytja í annað hverfi þar sem meira er af fólki með mismunandi uppruna en það myndi hafa í för með sér fjárhagslegar byrðar fyrir parið.