Ádeiluverk eftir breska listamanninn Banksy fékk ekki að vera lengi til friðs í strandbænum Clacton en einungis nokkrum dögum eftir að veggmyndin var sett upp - var búið að mála yfir hana.
Á myndinni voru fimm gráar dúfur sem eru með spjöld með áletrunum eins og „innflytjendur ekki velkomnir“, „Farið aftur til Afríku“ og „látið ormana okkar vera“. Beina dúfurnar slagorðunum að innflytjendafugli frá Afríku.
Grannt er fylgst með strandbænum þessa dagana þar sem líklegt þykir að breski sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) fái sinn fyrsta mann kjörinn á þing þar í næstu viku.
UKIP er þjóðernisflokkur en neitar því að tengjast rasisma. Forsvarsmenn flokksins segist aftur á móti vera andvígir því að innflytjendur fjölmenni til landsins.
Það er hreinsunardeild bæjarins sem fékk það verk að mála yfir myndina en að sögn Nigel Brown talsmanns bæjarins er Clackton vinalegur og fjölskylduvænn bær þar sem vel er tekið á móti gestum. Ekki sé hins vegar hægt að líða það að einhver ógni bæjarbragnum með því að mála eitthvað á hús bæjarins. Það sé stefna bæjaryfirvalda að mála yfir allt veggjakrot innan tveggja sólarhringa eftir að það er gert.
Hann segir að þeir sem máluðu yfir myndina hafi ekki gert sér grein fyrir því að verkið væri eftir Banksy en það hefði ekki skipt neinu,
Banksy, sem hefur valið að koma ekki fram undir réttu nafni, birti myndir af verkinu á vef sínum nokkru áður en málað var yfir það.
Verk Banksy njóta mikilla vinsælda og í ágúst seldi ungmennaklúbbur í fjárhagsvanda verk sem hann átti til safnara á 403 þúsund pund, 79 milljónir króna. Það verk, Mobile Lovers, var málað á spýtu og skrúfað inn í vegginn svo ungmennaklúbburinn gæti tekið það niður og selt.