Eftir að ný ríkisstjórn tók við í Svíþjóð í gær, hafa sænsku blöðin unnið ötullega að því að skoða fortíð ráðherranna til þess að athuga hvort þeir séu með beinagrindur í skápnum. Niðurstöðurnar sýna svarta vinnu, nektarmyndir og trú á „fyrra líf.“
Undarlegasta tilvikið kom fram þegar fortíð Kristina Persson, þingmanns jafnaðarmanna, er skoðuð. Árið 1997 kom Persson, þá fylkismaður í Jamtlandi í Svíþjóð, fram í sjónvarpsþættinum Striptease. Þátturinn fjallaði um átak í fylkinu sem gekk út á að fá atvinnulaust fólk aftur til vinnu. Þátturinn var með trúarlegu ívafi og segist Persson í þættinum hafa kynnst sjálfri sér í fyrra lífi, í gegnum hugleiðslu.
„Ég á sterkar minningar frá fyrra lífi. Allt frá því að ég var barin til dauða á 14. öldinni, þar til ég var bóndakona í Finnlandi á 19. öldinni. Fyrr á 20. öldinni var ég karlmaður,“ segir Persson í þættinum.
Á föstudaginn sagði hún í samtali við Expressen að framleiðendur þáttanna hafi platað hana.
Þá hafa þrír ráðherrar hafa viðurkennt að hafa neytt ólöglegra eiturlyfja og aðrir að hafa ráðið til sín fólk í svartri vinnu. Einn ráðherrann var í gær spurð út í nektarmyndir sem birtust í karlablaði fyrir 17 árum síðan. Hún segir myndirnar hafa verið notaðar í leyfisleysi.
Sjá frétt mbl.is: Sérstök staða í sænskri pólitík