Að mati hersveita Kúrda í Sýrlandi hafa loftárásir Bandaríkjahers ekki skilað tilskildum árangri. Telja Kúrdar að loftárásirnar hafi ekki skaðað Ríki íslams og uppgang samtakanna á svæðinu, en vígamenn þeirra nálgast nú landamæri Tyrklands og Sýrlands. The Guardian segir frá þessu í dag.
Nærri tvær vikur eru nú síðan Bandaríkjaher hóf loftárásir í Sýrlandi en áður hafði hann gert loftárásir á svæði í Írak. Er það tilraun til þess að stöðva Ríki íslams en liðsmenn úr hersveitum Kúrda segja þó að loftárásirnar hafi haft lítil áhrif.
Sveitir Ríki íslams eru nú rétt fyrir utan borgina Kobani og að sögn Kúrda eru þær einfaldlega of fjölmennar til að hægt sé að berjast gegn þeim.
„Loftárásir eru ekki nóg til þess að sigra Ríki íslams í Kobani,“ segir Idris Nassan, talsmaður hermanna úr röðum Kúrda. Lagði hann áherslu á að þeir gerðu allt sem þeir gætutil þess að verja borgina. „Þeir sitja um borgina við þrjár hliðar hennar og árásarflugvélar geta einfaldlega ekki hæft alla liðsmennina á jörðu niðri.“
Hann sagði einnig að liðsmenn Ríkis íslams hefðu lært hvernig best væri að verjast loftárásunum. „Í hvert skipti sem þota nálgast yfirgefa þeir stöðu sína og fara í felur. Það sem við virkilega þurfum er aðstoð á jörðu niðri. Við þurfum mikið af vopnum og skotfærum til þess að hrekja þá í burtu og sigra.“
Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights sem starfa í Bretlandi hafa sagt að árásarþotur hafi gert öflugar árásir í kringum Kobani síðustu nætur. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, hefur einnig sagt frá árásum sínum í Írak og Sýrlandi daglega en segja ekki hvar nákvæmlega þær eru.
Staðhæfingar Kúrda um að loftárásir séu ekki nóg til þess að sigra Ríki íslams koma sér illa fyrir stjórnvöld bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þau hafa bæði þvertekið fyrir það að löndin muni hefja landhernað í Írak og Sýrlandi.
Bandaríski þingmaðurinn Lindsey Graham sagði þó í samtali við CNN að eina sem virkaði væri landhernaður. „Loftárásir munu ekki virka til þess að útrýma Ríki íslams. Það er ekki hægt að útrýma þeim án landhernaðar.“
David Richards, fyrrverandi yfirmaður í varnarmálum Englands, tók í sama streng. „Loftárásir munu ekki sigra herferð eins og þeirra,“ sagði hann í útvarpsviðtali við BBC. Þetta eru ekki hefðbundnir hryðjuverkamenn. Þetta eru hefðbundnir óvinir að því leyti að þeir eru með vopn, skotfæri, skriðdreka og eru auðugir. Þeir eru sterkir og fjölmennir og munu berjast. Það þarf því að líta á þetta sem hefðbundið stríð.“
Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, var ekki sammála. „Ég virði David Richards en ég tel þetta ekki snúast um hvort við eigum að fara með hefðbundnar hersveitir þangað eins og þetta sé stríð á milli ríkja.“
Stjórnvöld í Bretlandi hafa lýst því yfir að breski herinn muni aðeins taka þátt í loftárásum í Írak, ekki í Sýrlandi. Clegg segist vera á móti því að auka þátttöku Bretlands. „Ég myndi ekki samþykkja það.“
Vilji Bretlands til þess að berjast gegn Ríki íslams minnkaði vissulega ekki eftir að samtökin hófu að myrða vestræna gísla sína. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hét því um helgina að „nota allt sem við eigum“ til þess að ná réttlæti fyrir Alan Henning, en morðið á honum var sýnt á netinu á föstudagskvöld. Hann er fjórði gíslinn sem Ríki íslams myrðir síðustu sex vikur. Liðsmenn samtakana hafa hótað að myrða Bandaríkjamanninn Peter Kassig næst.
Kobani er mikilvæg Kúrdum þar sem borgin er við landamærin og vegna þess að fjölmargir Kúrdar hafa flúið til hennar síðustu mánuði. Jafnframt hafa meira en 160 þúsund manns flúið til Tyrklands vegna Ríkis íslams og uppgangs þeirra.
Stjórnarmeðlimir Kúrda í Tyrklandi eru nú komnir að landamærunum til þess að sýna sýrlenskum Kúrdum stuðning. Tyrknesk yfirvöld hafa lofað því að Tyrkland muni ekki sitja og horfa á Kobani falla undir Ríki íslams.
„Við erum að kalla á alþjóðasamfélagið til þess að hjálpa okkur að vernda Kobani,“ segir Nassan. Ef samtökin ná Kobani verða þau alveg við landamæri Tyrklands. Þetta er ekki aðeins áhyggjuefni okkar, heldur Tyrklands líka.“