Tilkynnt var í dag að bandarísk yfirvöld hefðu handtekið 19 ára Bandaríkjamanna á flugvelli í Chicago-borg í Bandaríkjunum sem hefði ætlað að yfirgefa landið með það fyrir augum að ganga til liðs við liðsmenn Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi.
Fram kemur í frétt AFP að ungi maðurinn, Mohammed Hamzah Khan, hafi mætt á O'Hare alþjóðaflugvellinn á laugardaginn með flugmiða til borgarinnar Istanbul í Tyrklandi fram og til baka. Miðinn var keyptur í síðasta mánuði og hefði hann átt að snúa aftur til Bandaríkjanna síðar í þessari viku samkvæmt honum.
Lögreglumenn sem leituðu heima hjá Kahn fundu fjölda handskrifaðra bréfa þar sem bæði hann og aðrir lýstu yfir stuðningi við Ríki íslams og áætlanir um að ganga til liðs við samtökin. Rannsókn málsins er í gangi samkvæmt fréttinni en verði Kahn fundinn sekur um að hafa ætlað að liðsinna hryðjuverkasamtökum gæti það þýtt allt að 15 ára fangelsi og sekt upp á 250 þúsund dollara.