Forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning-Schmidt, boðaði þjóðaratkvæði um undanþágu Dana frá þátttöku í samstarfi ríkja Evrópusambandsins í dómsmálum í stefnuræðu sinni í danska þinginu í dag.
Ráðherrann sagði að hugmyndin væri að þjóðaratkvæðið færi fram eftir næstu þingkosningar en undanþágan þýddi að Danir gætu ekki lengur tekið þátt í löggæslustofnun ESB, Europol, samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Guardian.
Undanþágan er ein fjögurra sem Danir fengu eftir að þeir höfnuðu Maastricht-sáttmála ESB í þjóðaratkvæði 1992. Sáttmálinn var hins vegar samþykktur ári síðar í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu með þessum undanþágum. Ein þeirra er undanþága frá því að taka upp evruna.