Buffett veðjar á Hillary Clinton

Fjárfestirinn farsæli Warren Buffett greindi frá því á fundi um áhrifamestu konur heims sem haldinn var í Kaliforníu, að hann myndi leggja fé sitt undir ef veðmálið sneri að því hvort Hillary Clinton yrði næsti forseti Bandaríkjanna.

Fundurinn var haldinn af bandaríska viðskiptatímaritinu Forbes og var Buffett á meðal ræðumanna. „Hillary mun bjóða sig fram. Hillary mun vinna sigur í kosningunum. Ég myndi leggja mitt eigið fé undir væri það möguleiki í veðmáli, og það geri ég ekki af vanhugsuðu máli.“

Clinton sem verður 67 ára síðar í þessum mánuði er talin líkleg til að gera þá ákvörðun sína opinbera í byrjun næsta árs, að hún sækist eftir að verða forsetaefni demókrata. Buffett sagðist telja að hún muni draga það eins lengi og hún getur að gefa út tilkynninguna.

Buffett sem er dyggur stuðningsmaður Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, sagðist ekki hafa neina sérstaka skoðun á því hvert yrði forsetaefni repúblikana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert