Örlög sýrlenska bæjarins Kobane eru sama og ráðin vegna skorts á samræmingu aðgerða kúrdískra hersveita á jörðu niðri og herflugvéla Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra sem og viljaleysi Tyrkja til þess að beita her sínum gegn liðsmönnum Ríkis íslams. Þetta er haft eftir hernaðarsérfræðingum í frétt AFP í dag.
Hermenn Kúrda hafa varið Kobane að undanfarnar þrjár vikur fyrir ítrekuðum árásum liðsmanna Ríkis íslams en bærinn er við landamæri Sýrlands að Tyrklandi. Flestir íbúar bæjarins eru Kúrdar en margir þeirra hafa þegar flúið yfir landamærin til Tyrklands. Haft er eftir Mario Abou Zeid hjá Carnegie Middle East Center að í raun sé orðið of seint að bjarga bænum frá því að falla undir yfirráð íslamista.
Zeid segir örlög Kobane enn eina sönnun þess að loftárásir Bandaríkjamanna og fleiri ríkja á sveitir Ríkis íslams hafi ekki náð að stöðva framrás þeirra að neinu marki. Kúrdar hafa kallað eftir meiri alþjóðlegri aðstoð og hafa Bandaríkin og bandamenn þeirra auk Tyrklands verið harðlega gagnrýnd fyrir að stöðva ekki árás Ríkis íslams.
Eina leiðin að beita hersveitum á jörðu niðri
Fram kemur í frétt AFP að sérfræðingar séu sammála um að án samstarfs á milli hersveita á jörðu niðri og herflugvélanna sem gera loftárásir séu litlar líkur á að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra geti stöðvar framrás íslamista. Michael Clarke, framkvæmdastjóri Royal United Services Institute, segir að loftárásirnar hafi heft ferðafrelsi liðsmanna Ríkis íslams og neytt þá til þess að breyta um aðferðafræði en þær gætu ekki brotið samtökin á bak aftur.
„Eina leiðin til þess að eyða Ríki Íslams er að beita sambærilegum hersveitum á jörðu niðri,“ segir Clarke. Ennfremur segir í fréttinni að eftir að íslamistar hafi komist inn í austurhluta Kobane sé nánast útilokað að beita loftárásum vegna hættu á því að óbreyttir borgarar láti lífið. Clarke segir að eina mögulega leiðin til þess að bjarga Kobane sé að senda snarlega þungavopn til Kúrda í borginni eða að Tyrkir beiti skriðdrekasveitum sínum sem staðsettar séu við landamærin.
„Frá hernaðarlegu sjónarhorni eru hersveitir Tyrkja vel færar um að reka liðsmenn Ríkis íslams út úr Kobane ef ákveðið verður að senda þær yfir landamærin.“