Kúrdar bíða hjálpar gegn Ríki íslams á meðan blóðbað blasir við

Reykjarsúla stígur til himins eftir loftárásir til að aflétta umsátri …
Reykjarsúla stígur til himins eftir loftárásir til að aflétta umsátri Ríkis íslams um Kúrdabæinn Kobane í Sýrlandi við landamæri Tyrklands. AFP

Loftárásir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra virtust í fyrsta í skipti í gær bera árangur í orrustunni um sýrlenska landamærabæinn Kobane, sem hefur verið umsetin vígamönnum hreyfingarinnar Ríki íslams.

Að sögn Sýrlensku mannréttindavaktarinnar hörfuðu liðsmenn Ríkis íslams úr hverfum í austur- og suðvesturhluta bæjarins aðfaranótt gærdagsins. Rahmi Abd al-Rahman, stjórnandi vaktarinnar, sem hefur aðsetur í London og styðst við net heimildarmanna í Sýrlandi, sagði að þeir hefðu hörfað vegna loftárása á vígstöðvar Ríkis íslams fyrir utan Kobane, en harðir bardagar voru einnig háðir í bænum.

Enn eru þó liðsmenn Ríkis íslams í bænum. Þeim tókst að rjúfa varnir bæjarins í vikunni eftir þriggja vikna umsátur. Nái þeir Kobane undir sig verða þeir komnir með á sitt vald mikið órofið svæði, sem liggur að landamærum Tyrklands.

Vaxandi þrýstingur er nú á að Kúrdum verði veitt aukin utanaðkomandi aðstoð. Staffan de Mistura, sérlegur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, tók undir ákallið um tafarlausa hjálp. „Heimurinn, við öll, munum iðrast þess sárt nái [Ríki íslams] að leggja undir sig bæ, sem hefur varist af hugrekki, en er nú við að geta það ekki lengur,“ sagði hann. „Við verðum að láta til skarar skríða núna. Alþjóðasamfélagið verður að verja þá.“

Bandaríkin afskrifa Kobane

Bandarísk stjórnvöld virðast vera búin að afskrifa Kobane. Á fréttavef sjónvarpsfréttastöðvarinnar CNN var í gær haft eftir ónefndum bandarískum embættismönnum að meginmarkmiðið væri ekki að bjarga borgum og bæjum í Sýrlandi, heldur að vega að forustu Ríkis íslams og eyðileggja olíuhreinsunarstöðvar og aðra innviði til að gera samtökunum ógerlegt að starfa, sérstaklega í Írak.

Ýmsar ástæður væru fyrir þessari afstöðu. Í fyrsta lagi væri samband milli Íraksstjórnar og Bandaríkjanna, en stjórn Baracks Obama forseta vildi að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands léti af völdum.

Í öðru lagi ættu Bandaríkjamenn bandamenn á vígvellinum í Írak, þar á meðal íraska herinn og sveitir Kúrda, sem nefnast peshmerga.

Obama hyggst ekki leggja meira af mörkum í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi en árásir úr lofti. Í stjórn hans ríkir sú skoðun að Tyrkir eigi að hætta að draga lappirnar.

Grænt ljós en engar aðgerðir

Tyrkneska þingið gaf fyrir helgi grænt ljós að beita hernum til að hrinda sókn Ríkis íslams. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði á þriðjudag að Kobane væri við það að falla. Hann sagði hins vegar að Tyrkir myndu ekki aðhafast frekar nema Bandaríkjamenn samþykktu að veita uppreisnarmönnum í Sýrlandi aukna aðstoð við að steypa Assad.

Obama vill hins vegar að Tyrkir taki af skarið gegn Ríki íslams án þess að blanda stríðinu gegn Assad inn í málið.

Erdogan hefur einnig sagt að hann vilji ekki senda herlið inn í Sýrland nema að því verði framfylgt að ekki megi fljúga yfir átakasvæðið til þess að halda sýrlenska flughernum í skefjum.

Eins og fram kom í fréttaskýringu í The New York Times í gær finnst stjórn Obama Tyrkir vera með undanslátt og benda bandarískir embættismenn á að með lofárásunum undir forustu Bandaríkjamanna hafi skilyrðinu um að koma í veg fyrir að beita megi sýrlenska flughernum yfir norðurhluta Sýrlands í raun verið fullnægt.

„Það er vaxandi uggur yfir því að Tyrkir skuli draga lappirnar í að koma í veg fyrir fjöldamorð innan við mílu frá landamærum sínum,“ sagði háttsettur bandarískur embættismaður við The New York Times í skjóli nafnleyndar. „Eftir allan reiðilesturinn um mannlegar hamfarir í Sýrlandi finna þeir upp ástæður til að aðhafast ekki til að koma í veg fyrir aðrar mannlegar hamfarir. Svona hegðar bandamaður í NATO sér ekki á meðan helvíti skapast steinsnar frá landamærum hans.“

Hörð mótmæli í Tyrklandi

Aðgerðaleysi tyrkneskra stjórnvalda hefur ekki bara valdið reiði í

Washin gton. Kúrdar í Tyrklandi hafa mótmælt harðlega og á þriðjudagskvöld og í gær sauð upp úr með þeim afleiðingum að a.m.k.19 manns létu lífið.

Sérfræðingar halda því fram að í raun haldi Erdogan Kúrdunum í Kobani í gíslingu. Soner Cagaptay, sérfræðingur Stofnunar um Mið-Austurlandamál í Washington, segir að markmiðið sé að veikja stöðu Verkamannaflokks Kúrdistans í friðarviðræðum við stjórnvöld í Ankara.

Tyrkir vilja einnig að sveitir Kúrda í Sýrlandi afneiti Assad og gangi opinberlega til liðs við uppreisnarmenn. Sveitir Kúrda og stjórnmálamenn þeirra hafa fremur einbeitt sér að því að koma sér upp sjálfstjórn og verja sitt landsvæði, en að berjast við stjórnvöld í Damaskus.

Sums staðar hafa þeir meira að segja barist við hlið stjórnarhersins.

Kúrdar í Sýrlandi berjast undir merkjum Verndarsveita þjóðarinnar, skammstafað YPG, sem eru hinn vopnaði armur stjórnmálasamtakanna Lýðræðissambandsflokkur Kúrda, YPG.

Tyrknesk stjórnvöld segja að YPG sé útibú PKK, sem í áratugi barðist blóðugri baráttu fyrir sjálfstæði Kúrda í Tyrklandi, en hefur nú snúið við blaðinu, lagt niður vopn og krefst nú aukinnar sjálfstjórnar í stað sjálfstæðis. PKK eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök í Tyrklandi og víða á Vesturlöndum. YPG varð til eftir að Kúrdar héldu mótmælafundi gegn stjórn Assads árið 2004, en tilvist samtakanna varð opinber sumarið 2012 þegar uppreisnin gegn stjórn landsins hafði staðið í ár.

PYD og YPG neita því að bein tengsl séu við PKK, þótt hugmyndafræðilegur skyldleiki sé fyrir hendi.

Kúrdar koma víða að

Ríki íslams er ekki eitt um að fá liðsafla frá Evrópu. Það sama á við um Kúrda, þótt liðsaukinn sé ekki næstum því jafn fjölmennur.

Tugir Kúrda hafa sagt skilið við vestræn þægindi í Amsterdam, Berlín eða Róm til að taka upp vopn í röðum Kúrda í Írak. Sumir þeirra hafa reynslu af að berjast með peshmerga-sveitum Kúrda, en aðrir hafa aldrei komið nálægt stríði.

Í frétt frá AFP segir frá 12 bræðrum úr sömu fjölskyldu, Nawzad Anwerbeg. Sumir þeirra höfðu búið í Kúrdistan í Írak í nokkur ár. Flestir ákváðu að leggja land undir fót frá Hollandi. Kúrdarnir leyna ekki ferðum sínum. Einn bræðranna hringdi séstaklega í hollenska utanríkisráðuneytið til þess að tilkynna að hann væri genginn í raðir peshmerga í Írak tveimur dögum eftir komu sína.

Öðrum bræðranna, Aza, sem er nýorðinn 24 ára gamall, var fenginn rifill og tveir dagar til að æfa sig áður en hann var sendur á víglínuna. Hann hafði aldrei hleypt af riffli áður.

„Að minnsta kosti hefur eitthvað gott komið út úr þessu stríði,“ sagði hann. „Það hefur sýnt heiminum úr hverju Kúrdar eru gerðir.“

Aza var í kennaranámi í Hollandi, en nú segist hann ætla að verða peshmerga að eilífu.

„Börn okkar hafa ferðast frá Evrópu til að taka þátt í þessu stríði,“ sagði einn af öldungum ættarinnar, Sarhad Anwerbeg Betwata. „Þeir fara í einkennisbúning og eru tilbúnir til að verða píslarvottar.“

Vilja öflugri vopn
» Kúrdar segja að tæpar standi í Kobane en fólk haldi og þeir verði að fá þungavopn til að verja bæinn.
» Kúrdneski blaðamaðurinn Mustafa Ebdi sagði á Facebook í gær að á götum hverfisins Maktala í Kobane lægju lík liðsmanna Ríkis íslams eins og hráviði. Hann bætti við að ástæða væri til að óttast um almenna borgara í bænum.
Fólk fylgist með loftárásum á Kúrdabæinn Kobane.
Fólk fylgist með loftárásum á Kúrdabæinn Kobane. AFP
Orrustuþota á flugi yfir Kobane.
Orrustuþota á flugi yfir Kobane. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert