Háskólanemar í Bretlandi hafa verið hvattir til að pissa í sturtu til að spara vatn. Átakið kallast Go with the Flow og er hugarfóstur þeirra Debs Torr og Chris Dobson, nemenda í University of East Anglia (UEA) í Norwich.
Torr og Dobson vilja hvetja alla 15 þúsund nemendur skólans til að taka fyrsta piss dagsins í morgunsturtunni. Dobson, sem er tvítugur, sagði hugmyndina á einu ári geta „sparað nógu mikið vatn til að fylla ólympíusundlaug 26 sinnum.“
Samkvæmt útreikningum Torr og Dobson getur það sparað 720 milljón lítra af vatni árlega ef allir í Bretlandi taka þátt í átakinu. Þá geti það sparað 125 þúsund pund, eða rúmlega 24 milljónir, ef allir í UEA taka þátt. Gert er ráð fyrir því að það að sturta niður einu sinni kosti 2 pens. Því geti hver og einn sem sleppi því að sturta niður einu sinni á dag sparað rúmlega 7 pund á ári.
„Við höfum reiknað þetta út, og þetta verkefni getur haft gríðarmikil áhrif. Að ímynda sér hversu mikil áhrif það getur haft að fá alla í East Anglia, eða jafnvel í öllu Bretlandi, til að breyta morgunvenjum sínum,“ sagði Dobson, í samtali við breska ríkisútvarpið.
Tvíeykið hefur hvatt þá sem taka þátt í átakinu til að segja frá því á Facebook- og Twitter-síðum sínum og hafa boðið þeim fyrstu sem taka þátt verðlaun.
Dobson segir viðbrögðin hafa verið misjöfn, annað hvort elskar fólk hugmyndina eða hatar hana.