Kúrdar eiga í vök að verjast í landamærabænum Kobane í Sýrlandi. Vígamenn bókstafstrúarhreyfingarinnar Ríkis íslams voru í dag komnir inn í bæinn og höfðu lagt þriðjung hans undir sig en síðla dags bárust fréttir um að með hjálp loftárása hefði tekist að hrekja þá út úr honum aftur. Bardagamenn Kúrda hafa skipað óbreyttum borgurum að forða sér og gæti verið skammt í að borgin falli í hendur Ríkis íslams.
Kobane, sem á arabísku nefnist Ain al-Arab, liggur við landamæri Tyrklands og er síðasta vígið á svæði, sem áður var á valdi sýrlenskra Kúrda. Kúrdar eru þekktir fyrir að berjast af hörku. Bardagamenn þeirra eru kallaðir „peshmerga“, sem merkir „þeir sem horfast í augu við dauðann“. Kúrdarnir eru hins vegar verr vopnum búnir en liðsmenn Ríkis íslams. Kúrdar hafa notið liðsinnis Bandaríkjamanna og Frakka og nú Ástrala úr lofti til að verjast og kannski væri Kobane þegar fallin án loftárásanna, en Kúrdarnir hafa sagt að einar og sér dugi þær ekki til að snúa taflinu við.
Kúrdum í Írak hefur gengið betur að eiga við liðsmenn Ríkis íslams. Vígamenn Ríkis íslams voru komnir í námunda við Arbil, höfuðborg sjálfstjórnarsvæðis Kúrda í norðurhluta Íraks. Kúrdum þykir niðurlæging hvað Ríki íslams náði langt, en peshmerga-liðum Kúrda hefur nú tekist að ná nokkrum þorpum úr höndum þeirra.
Sókn Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi hefur breytt stöðu Kúrda. Kúrdar hafa verið dyggustu stuðningsmenn Bandaríkjamanna í Írak. Til marks um það er að þegar Bandaríkjamenn drógu herlið sitt burt frá Írak 2011 hafði ekki einn einasti bandarískur hermaður fallið á landsvæði Kúrda. Stuðningur Bandaríkjamanna við Kúrda hefur hins vegar verið hálfvolgur. Þeir hafa lagt áherslu á samskiptin við stjórnvöld í Bagdað á kostnað Kúrda vegna þess að þeir vilja ekki að ráðamenn í Arbil eflist um of og ýta undir sjálfstæðishugmyndir þeirra.
Átökin hafa einnig haft áhrif á samskipti Tyrkja við Kúrda. Á föstudag lýsti Ahmet Davutoglu, foræstisráðherra Tyrklands, yfir því að Tyrkir myndu gera allt, sem í þeirra valdi stæði, til að koma í veg fyrir að Ríki íslams næði Kobane á sitt vald, eftir að tyrkneska þingið veitti samþykki fyrir að beita hervaldi.
Davotoglu sagði að ekkert land væri í jafn góðri stöðu og Tyrkland til að hafa áhrif á gang mála í Sýrlandi og Írak. Áhrifin af atburðarásinni yrðu heldur ekki jafn mikil ein neinu öðru landi.
Tyrknesk stjórnvöld hafa hins vegar ekki fylgt þessum orðum eftir í verki og nú mótmæla Kúrdar aðgerðarleysinu á götum úti í Tyrklandi.
Kúrdar eru á milli 25 og 35 milljónir og búa einkum í fjórum löndum. Kúrdar segja að þeir séu stærsta landlausa þjóð heims. Langflestir eru í Tyrklandi eða á milli 12 og 15 millónir manna. Fimm milljónir búa í Íran, 4,6 milljónir í Írak og tvær milljónir í Sýrlandi. Í Tyrkalandi hafa Kúrdar undir forustu Verkamannaflokks Kúrda, PKK; verið í uppreisn í áratugi og hefur atgangurinn verið harðastur í suðausturhluta landsins. Tyrknesk stjórnvöld, Evrópusambandið og Bandaríkjamenn líta á PKK sem hryðjuverkasamtök. Á 30 árum hafa 45 þúsund manns fallið í átökunum.
Tyrknesk stjórnvöld hófu friðarviðræður við PKK 2012 og í mars 2013 var lýst yfir vopnahléi. PKK sóttist upprunalega eftir stofnun sjálfstæðs ríkis, en hefur nú aukna sjálfstjórn á stefnuskránni.
1945 stofnuðu Kúrdar í Íran lýðveldið Kúrdistan, sem kennt var við borgina Mahabad. Forustumenn Kúrda í Íran treystu á stuðning Sovétríkjanna. Sovétmenn samþykktu hins vegar undir þrýstingi frá Vesturlöndum undir forustu Bandaríkjamanna að draga sig í hlé og leyfa stjórnvöldum í Teheran að ná völdum á ný. Því hefur verið haldið fram að lýðveldið hafi verið fyrsta sjálfstæða ríki Kúrda og saga þess var stutt.
Eignist Kúrdar sitt eigið ríki á ný er líkleg að það verði í Írak. Frá því að Bandaríkjamenn réðust ásamt bandamönnum inn í Írak hefur Kúrdum í norðurhluta landsins vaxið ásmegin. Á meðan óöld og glundroði hefur í mismiklum mæli ríkt annars staðar í landinu hefur verið tiltölulega friðsamt hjá Kúrdum í Norður-Írak.
Bandaríski blaðamaðurinn Dexter Filkins segir í grein, sem birtist í tímaritinu The New Yorker í september að „aðeins á landsvæði Kúrda rættist draumurinn, sem George W. Bush forseti setti fram þegar hann fyrirskipaði árásina: það er hlynnt vestrinu, að miklu leyti lýðræðislegt, að miklu leyti veraldlegt og vegnar vel efnahagslega“.
Filkins rifjar upp að Barack ObamaBandaríkjaforseti hafi nýlega sagt í viðtali við The New York Times að stjórn Kúrda „virki á þann veg sem við viljum sjá“. Engu að síður fylgja bandarísk stjórnvöld stefnu, sem kölluð er „eitt Írak“ og grafa undan draumi Kúrda. Hluti þeirrar stefnu er að vara við því að það geta haft alvarlegar lagalegar afleiðingar að kaupa olíu af Kúrdum. Þetta hefur haft áhrif því að stjórn Kúrda í Írak er nánast gjaldþrota.
Kúrdum hefur í einhverjum tilfellum tekist að selja olíu. Olíuskip þeirra fara um eins og draugaskip með slökkt á staðsetningartækjum. Fulllestuð hverfa þau af ratsjám og birtast aftur tóm.
Síðan í júlí hefur olíuskipið United Kalavrvta legið við festar um 60 sjómílur undan ströndum Texas með 100 milljóna dollara olíufarm, sem ekki tekst að koma í verð. Írösk stjórnvöld heimta að farmurinn verði gerður upptækur, en bandarískir dómstólar segjast ekki hafa lögsögu til þess. Stjórnvöld í Bagdað segjast ein hafa rétt til þess að flytja út hráolíu frá Írak og bandarísk stjórnvöld hafa stutt það.
Nú vilja Bandarkjamenn að Kúrdar verði bandamenn þeirra í baráttunni við Ríki íslams, en þeir vilja ekki styðja draum þeirra um sjálfstætt ríki. Þá yrði tilraun Bandaríkjamanna til uppbyggingar í Írak endanlega unnin fyrir gýg. Kúrdar sjá sér hins vegar lítinn hag í að lúta stjórnvöldum í Bagdað og sókn Ríkis íslams skapar nýtt tækifæri til að seilast eftir sjálfstæði.
Masoud Barzani, forseti Kúrda í Írak, lítur svo á að eftir allt sem á undan er gengið, fjöldamorð og svik, beri honum engin skylda til að hjálpa til við að bjarga Írak í þágu einhvers annars.
„Við gerðum okkar besta til að hjálpa til við að búa til nýtt Írak á grunni nýrra grundvallarskilmála,“ sagði Barzani í viðtali við Filkins. „Við drógum ekki af okkur við að láta þetta nýja Írak ganga upp. En því miður hefur það mistekist. Nú spyrjum við þá, sem efast um okkur: Hversu mikið lengur ueigum við að bíða, og hversu mikið lengur eigum við að neita okkur um örlög okkar í stað óvissrar framtíðar?“
Fá fordæmi eru fyrir samstöðu súnníta og sjíta í Írak, en árið 1920 sneru þeir bökum saman í uppreisn gegn hernámsliði Breta. Á sama tíma gerðu Kúrdar uppreisn í von um að knýja fram sjálfstæði. Bretar brutu uppreisnirnar á bak aftur, en það reyndist þeim dýrkeypt og brugðu þeir á það ráð að setja á fót leppstjórn í landinu. Faisal ibn Hussein, sem hafði verið hliðhollur Bretum, var gerður að konungi Íraks. Þremur fyrrverandi héruðum Tyrkjaveldis var steypt saman í Írak. Sjítar réðu lögum og lofum í suðurhlutanum, súnnítar í miðjunni og Kúrdar í norðurhlutanum.
Leiðtogi Kúrda þegar þeir stofnuðu lýðveldi í Íran 1945 var Mustafa Barzani, faðir Masouds, núverandi forseta, sem fæddist í Mahabad 1946. Þegar Sovétmenn drógu stuðning sinn við lýðveldi Kúrda til baka og stjórnvöld í Teheran náðu þar völdum á ný flúði Mustafa Barzani í útlegð í Sovétríkjunum, skildi eftir konu sína og son og liðu 12 ár þar til þau náðu endurfundum.
Mustafa Barzani sneri aftur til Íraks 1958 og leiddi andspyrnu gegn yfirvöldum í Bagdað frá norðurhéruðum Kúrda. Stuðning sótti hann úr ýmsum áttum, sovésku leyniþjónustunnar KGB, bandarísku leyniþjónustunnar CIA, ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad, bresku leyniþjónustunnar MI6 og írönsku leyniþjónustunnar SAVAK.
Á áttunda áratugnum tókst Kúrdum að tryggja sér stórt sjálfstjórnarsvæði í norðurhluta Íraks með stuðningi Íranskeisara, Ísraela og CIA. „Faðir minn treysti aldrei keisaranum, en hann hafði fulla trú á Bandraíkjamönnum,“ segir Masoud Barzani.
Íranskeisari gerði árið 1975 samkomulag við Saddam Hussein, sem þá var orðinn leiðtogi Íraks, og batt enda á stuðninginn við Kúrda í landinu. Í kjölfarið hætti stuðningur Bandaríkjamanna og Ísraela. Íraski herinn lagði svæðið undir sig og rúmlega hundrað þúsund Kúrdar flúðu brott. Mustafa Barzani greindist nokkru síðar með krabbamein og bjó síðustu árin sem hann lifði í Bandaríkjunum. Filkins rifjar í grein sinni upp bréf, sem hann skrifaði skömmu fyrir andlát sitt 1979 til Jimmys Carters Bandaríkjaforseta: „Ég hefði getað komið í veg fyrir þá ógæfu, sem dundi yfir þjóð mína, hefði ég ekki trúað algerlega fyrirheitum Bandaríkjamanna.“
Mustafa Barzani átti bágt með að fyrirgefa Bandaríkjamönnum og nafn Henrys Kissingers, sem var utanríkisráðherra þegar Íranar gerðu samkomulagið við Íraka, er hatað meðal margra Kúrda. Kissinger studdi samkomulagið nafni raunsæisstjórnamála, realpólitíkur, og taldi að það myndi stuðla að stöðugleika í Mið-Austurlöndum og gera Sovétmönnum erfiðara fyrir að seilast til áhrifa.
„Saga samskipta Kúrda við Bandaríkin sveiflast á milli björgunar og brotthvarfs og fyrir vikið milli þakklætis og vantrausts,“ skrifar Filkins.
Kúrdar sættu linnulausum ofsóknum af hálfu Saddams Husseins. 1987 beitti hann efnavopnum gegn þeim og þurrkaði út heilu Kúrdaþorpin. Peter Galbraith, sonur Johns Kenneths Galbraiths, eins þekktasta hagfræðings 20. aldarinnar, fór um þessar slóðir ungur að árum þegar hann var starfsmaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, ásamt samstarfsmönnum sínum. Hann skrifaði síðar að á leiðinni hefði hann furðað sig á að hann skyldi ekki finna þorp, sem voru merkt inn á kortið, sem hann var með. Hann sá einnig þorp, sem verið var að jafna við jörðu með jarðýtum, en fékk ekki að skoða þau.
Árið eftir sá hann fréttir þar sem Kúrdar sögðu að ráðist hefði verið á þá með eiturgasi. Stríði Íraka og Írana var þá lokið þannig að engin spurning var um hver hefði beitt vopnunum. Galbraith fór að landamærum Tyrklands og Íraks og staðfesti að meðal flóttamanna Kúrda var fólk, sem þjáðist af völdum eiturgass. Talið er að Saddam Hussein hafi látið eyða 4.000 þorpum. Galbraith leit á þetta sem tilraun til þjóðarmorðs og reyndi að vekja athygli á stöðu Kúrda, en fékk lítinn hljómgrunn. Hann reyndi að koma því til leiðar í samstarfi við öldungadeildarþingmanninn Claiborn Pell að gripið yrði til refsiaðgerða, en á þeim tíma var Hussein í náðinni og þingið aðhafðist ekkert.
Í ágúst 1990 réðust Írakar inn í Kúvæt og Hussein féll í ónáð. Undir forustu Bandaríkjamanna var ráðist til atlögu við Íraka og þeir voru hraktir út úr Kúvæt á fjórum dögum. Í kjölfar þessarar atlögu gerðu Kúrdar og minnihlutahópur sjíta í Írak uppreisn. Bandarískir embættismenn eggjuðu uppreisnarmennina áfram í útvarpsútsendingum og skoruðu á þá að steypa Hussein.
Þegar samið var um uppgjöf Írakshers féllst Norman Schwarzkopf, herforingi úr Bandaríkjaher, á ósk Íraka um að flugmenn þeirra fengju að fljúga á þyrlum um landið. Hann sagði síðar að hann hefði ekki gert sér grein fyrir því að þyrlurnar yrðu notaðar til að kveða niður uppreisnina. Íraksher réðist af hörku gegn uppreisnarmönnunum og þyrlurnar voru notaðar til að varpa á þá eiturvopnum. Talið er að 150 þúsund sjítar hafi fallið. Kúrdar fylltust ótta við gasárásir og flúðu næstum tvær milljónir manna úr þeirra röðum til Írans og Tyrklands. Tugir þúsunda manna létust í árásum eða af vosbúð á leiðinni. Þessi gerningur Bandaríkjamanna sat enn í súnnítum og Kúrdum í Írak þegar Bandaríkjamenn gerðu innrás 2003 til að steypa Saddam Hussein.
George H. W. Bush Bandaríkjaforseti neitaði að skerast í leikinn og sagði að um innanríkismál væri að ræða. Masoud Barzani hafði þá tekið við forustu Kúrda eftir lát föður síns. Hann hafði minna en hundrað manns undir sinni stjórn, en tókst að stöðva íraska skriðdrekasveit í Kore-dal. Að endingu fyrirskipaði Bush að yfir norður- og suðurhluta Íraks yrði flugbannsvæði og íraskar flugvélar, sem færu inn á þau svæði, yrðu skotnar niður. Það varð til þess að stöðva árásir Íraka og Saddam Hussein bauð Barzani til samninga í Bagdað.
Barzani lýsir fundum þeirra í grein Filkins í The New Yorker þar sem þeir voru tveir einir í skrifstofu forsetans: „Í fimm mínútur stóð ég þarna, gat ekki andað og hélt að ég væri að fá hjartaáfall. Loks sagði ég við Saddam, „ég hef synt í gegn um haf blóðs“.“ Hann sagði að Hussein hefði verið vinsamlegur og jafnvel auðmjúkur. Þegar te var borið fram teygði hann sig yfir borðið og skipti á bollum til að fullvissa Barzani um að teið væri ekki eitrað. „Hann var svo kurteis við mig á öllum okkar fundum. En gerðir hans? Enginn djöfull getur gripið til slíkra aðgerða.“
Flugbannsvæðið reyndist upphafið á vegferð Kúrda að sjálfstjórn. Í 12 ár fengu þeir svigrúm til að byggja upp sínar eigin stofnanir. Barzani lagði enn frekari grunn að sterkri stöðu Kúrda og stofnun ríkis þegar samið var um nýja stjórnarskrá Íraks 2005. Í stríðinu í Írak stóðu Kúrdar með Bandaríkjamönnum. Peshmerga-liðar tóku þátt í því að mynda nýjan Íraksher. Einn af leiðtogum þeirra, Jalal Talabani, varð forseti landins.
Samhliða tilraunarinnar til uppbyggingar í Írak þróuðu Kúrdar sitt eigið hliðarríki, ef svo má að orði komast. Þeir hlúðu að sínum eigin stofnunum í lýðræðislegum anda og héldu úti eigin her, þótt Bandaríkjamenn reyndu að koma því til leiðar að hann yrði leystur upp. Kúrdar vildu vera tilbúnir ef Íraska ríkið skyldi liðast í sundur.
Þegar upp var staðið gat Barzani sagt að hann hefði lagt sitt af mörkum til að viðhalda einingu Íraks þannig að ráðamenn í Bagdað og Bandaríkjamenn væru sáttir, en um leið lagði hann grunn að nýju ríki.
Í sumar urðu kaflaskipti þegar Ríki íslams, sem þá kallaðist Ríki íslams í Írak og Sýrlandi og gekk undir skammstöfununum ISIS eða ISIL, vann hvern sigurinn á fætur öðrum. Barzani hafði varað Nuri al-Maliki, sem þá var forseti Íraks, við samtökunum í fyrrahaust og boðið aðstoð. Maliki sagði honum að sjá um Kúrdistan, hann hefði stjórn á öðrum hlutum landsins. Leiðtogar Kúrda segja að Maliki hafi gortað af því að Íraksher stæði sig frábærlega í átkum við ISIS og öðrum uppreisnarmönnum súnníta, en þeir höfðu heimildir fyrir því að herinn væri að hrynja. Leiðtogar Kúrda segja að veikleikar íraska hersins hafi verið augljósir árum saman. Bandaríkjamenn hafi sólundað milljörðum dollara til uppbyggingar hans og megninu hafi verið stolið. Þetta hafi Bandaríkjamenn vitað, en ekki viljað viðurkenna. Það kom í ljós þegar Mosul féll í hendur öfgamannanna og íraski herinn gufaði upp. Nokkrum dögum áður höfðu Kúrdar boðið hjálp sína, en verið hafnað, sennilega af ótta við að þeir myndu leggja Mosul undir sig.
Næst beindi ISIS sjónum að Kirkuk, sem lengi hafði verið bitbein Kúrda og stjórnvalda í Bagdað. Kúrdar líta margir á Kirkuk sem heilagan stað sem eigi að vera hluti sjálfstæðs ríkis Kúrda. Kúrdum í borginni hefur hins vegar fækkað í áranna rás vegna þjóðernishreinsana. Eftir innrás Bandaríkjanna hafa sveitir Íraka, Kúrda og Bandaríkjamanna (til 2011) gætt borgarinnar.
Mótspyrna íraska hersins í Kirkuk var ekki meiri en í Mosul. Þegar borgin var við það að falla létu Kúrdar til skarar skriða. Barzani gaf fyrirskipun: „Fyllið tómarúmið.“ Áður en dagurinn var liðinn höfðu Kúrdar yfirtekið borgina. Ekki leið á löngu þar til Barzani gaf til kynna að borginni yrði ekki skilað.
Nú er svo komið að mörkin þar sem land á valdi Ríkis íslams liggur að yfirráðasvæði Kúrda er eitt þúsund kílómterar. Mörk landsvæðanna á valdi íraska hersins og Kúrda mætast aðeins á 16 km kafla nærri landamærum Írans. Kúrdar eru mun verr vopnum búnir en vígamenn Ríkis íslams, en þeim hafa borist vopn frá vestrænum ríkjum. Kúrdar munu verja sitt landsvæði af hörku, en þeir eru tregir til að blása til sóknar þar sem arabar eru í meirihluta.
Uppgangurinn í Kúrdistan hefur gerbreytt samskiptunum við Tyrki. Um 1.200 tyrknesk fyrirtæki eru að stöfum í Kúrdistan og allt að 100 þúsund tyrkneskir verkamenn. Í lýsingum frá Arbil er talað um að alls staðar blasi við byggingarkranar, glæsileg hótel og íbúðarhús. Ekki er þó allt í lukkunnar velstandi. Sókn Ríkis íslams hefur valdið samdrætti og sömuleiðis deilur við stjórnvöld í Bagdað. Samkvæmt stjórnarskrá á Kúrdistan að fá 17% af olíutekjum Íraka. Sú tala er í samræmi við hlutafall Kúrda af heildarfjölda íbúa Íraks.
Embættismenn Kúrda halda fram að stjórnvöld í Bagdað snuði þá á hverju ári og nú sé svo komið að þeir eigi 25 milljarða dollara inni. Rannsóknir sýna að í Kúrdistan sé fjórðungur af ónýttum olíulindum Íraks. Kúrdar hafa samið við vestræn fyrirtæki um að kanna, bora og framleiða olíu. Fyrir ári opnuðu Kúrdar olíuleiðslu um Tyrkland til Miðjarðarhafs. Maliki brást við með því að segja að Kúrdar ætluðu að sniðganga samkomulagið um að jafna olíutekjurnar. Í febrúar voru greiðslur til Kúrda stöðvaðar. Kúrdar kunna að sitja á óheyrilegum olíulindum, en við þetta misstu þeir megnið af tekjum ríkisins. Tekjur hins opinbera í Arbil voru 80% lægri nú í september en í september í fyrra.
Ákvæði stjórnarskrárinnar um olíuna eru ekki skýr. Kveðið er á um að stjórnvöld í Bagdað eigi að skipta tekjum af olíu, sem dælt var upp eftir 2005, en óljósara er hvert fyrirkomulagið eigi að vera á olíulindum, sem fundist hafa eftir það þótt gefið sé til kynna að það eigi að vera á valdi yfirvalda á hverjum stað fyrir sig. Vandamálin eru fleiri. Tekjurnar af þeirri litlu olíu, sem Kúrdar hafa selt, eru á bönkum í Tyrklandi. Tyrknesk stjórnvöld hafa sagt að þeim eigi að skipta samkvæmt stjórnarskránni. Kúrdar fengju þá aðeins 17%.
Eftir að peningarnir hættu að berast frá Bagdað fór allt í baklás. Embættismenn fá ekki borgað og peninga vantar til að flytja inn neysluvörur. Stundum eru margra kílómetra langar biðraðir við bensínstöðvar.
Þótt Kúrdar vilji sjálfstæði er víða óánægja með stjórnarfarið. Tvö ættarveldi ráða lögum og lofum í landinu, annað undir forustu Masouds Barzanis, forseta Kúrda, hitt undir forustu Jalals Talabanis, fyrrverandi forseta Íraks, sem reyndar fékk hjartaáfall í hittifyrra, en það mun ekki hafa dregið úr áhrifum fjölskyldunnar. Barzani og Talabani hafa leitt sitt hvorn stjórnmálaflokkinn og eldað grátt silfur en einnig unnið saman. Í upphafi byggðu fjölskyldurnar völd sín á skæruliðasveitum, en hösluðu sér völl í stjórnmálum og urðu að risastórum fjölskyldufyrirtækjum, sem söfnuðu auði og völdum.
2011 fór alda mótmæla um Kúrdistan. Þegar hæst stóð mótmæltu þúsundir manna. Stjórnvöldum var afhent bænaskjal í fjórtán atriðum þar sem meðal annars var farið fram á að bundinn yrði endi á spillingu. Eftir tvo mánuði umkringdu öryggissveitir mótmælendur og réðust til atlögu. Tveir mótmælendur létu lífið og 47 særðust.
Barzani hyggst halda þjóðaratkvæði um sjálfstæði á þessu ári eða næsta. Ljóst er að Kúrdar eru langt í frá að vera sjálfbærir í tekjuöflun. Olíutekjur eins og umfang vinnslunnar er nú myndu duga skammt, jafnvel þótt þeir gætu selt olíuna óhindrað og án mótlætis. Þá eru Kúrdar í Írak undir miklum þrýstingi Bandaríkjamanna um að vera áfram hluti af landinu. Á hinn bóginn er undirbúningur sjálfstæðis það langt kominn að ólíklegt er að Kúrdar sætti sig við að vera áfram spyrtir við ríki þar sem löngum hefur verið þeim óvinveitt og nú virðist ramba á barmi hruns.
Heimildir: The New Yorker, The Washington Post, Der Spiegel, The New York Times og AFP.