Stjórnkerfið hreinsað í Úkraínu

Petró Porósjenkó, forseti Úkraínu.
Petró Porósjenkó, forseti Úkraínu. AFP

Forseti Úkraínu, Petró Porósjenkó, staðfesti í dag umdeilda lagasetningu sem gæti orðið til þess að allt að ein milljón opinberra embættismanna yrði fyrirvaralaust sagt upp störfum vegna meintra tengsla við Sovétríkin á sínum tíma eða fyrri ríkisstjórnir landsins sem hliðhollar voru Rússum.

Fram kemur í frétt AFP að lagasetningin sé í anda hliðstæðra laga sem sett voru í öðrum Austur-Evrópuríkjum eftir að þau komust undan valdi Sovétríkjanna fyrir tæpum aldarfjórðung þegar kalda stríðinu lauk. Samkvæmt lögunum verða embættismenn reknir úr störfum sínum sem gegndu embættum í meira en ár undir stjórn Viktors Janúkóvítsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, sem er í sjálfsskipaðri útlegð í Rússlandi.

Einnig verður sett á laggirnar sérstök nefnd til þess að rannsaka dómara og lögreglumenn sem grunaðir eru um að búa við lífsgæði sem séu í engu samræmi við starfslaun þeirra. Þá er gert ráð fyrir því að þeir sem ekki geti útskýrt miklar tekjur sínar eða eignir megi ekki gegna opinberu embætti næstu 5-10 ár.

Porósjenkó sagði á Facebook-samskiptavefnum af þessu tilefni að um sögulegan dag væri að ræða fyrir Úkraínu og að stjórnkerfið yrði hreinsuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert