Varð fyrir býflugnaárás og lést

Býflugur geta verið stórhættulegar.
Býflugur geta verið stórhættulegar. mbl.is/Arnaldur

Hundruð þúsunda býflugna réðust á garðyrkjumann í Arizona. Maðurinn lést. Annar maður varð einnig fyrir árás flugnanna og var fluttur slasaður á sjúkrahús.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að mennirnir hafi verið að vinna við hús í Douglas, bæ rétt við landamærin að Mexíkó, er þeir urðu fyrir árás flugnanna.

Mennirnir voru fjórir saman að slá garð. Er sjúkralið kom á vettvang var einn þeirra orðinn meðvitundarlaus og lést hann á sjúkrahúsi skömmu síðar. Annar maður, sem enn liggur á sjúkrahúsi, var stunginn að minnsta kosti hundrað sinnum.

Á háalofti hússins fannst gríðarlega stórt býflugnabú. Búið var 1,2 metra breitt og 1,8 m hátt. Talið er að það sé tíu ára gamalt og að í því hafi um 800 þúsund býflugur haldið til. 

Lögregla og slökkvilið þurftu að loka götunni á meðan unnið var að því að rífa þakið af húsinu og fjarlægja býflugnabúið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert