Kínverskir dómstólar hafa dæmt tvo meðlimi öfgatrúarhóps til dauða eftir að þeir börðu konu til dauða á McDonald's veitingastað í maí sl. Þetta gerðu þeir eftir að konan neitaði að gerast meðlimur trúarhópsins og gefa mönnunum símanúmer sitt.
AFP greinir frá því að mennirnir, sem heita Zhang Fan og Zhang Lidong, hafi verið fundnir sekir um manndráp af yfirlögðu ráði, og að nota trúarhópinn til að grafa undan lögum. Ekki er vitað hvort tvíeykið hyggst áfrýja dómunum.
Þrír meðlimir hópsins til viðbótar voru dæmdir í fangelsi. Einn í lífstíðarfangelsi og hinir í 7 og 10 ára fangelsi. Mennirnir eru allir meðlimir í trúarhópnum Quannengshen, sem þýða má sem kirkja hins heilaga Guðs. Meðlimir hópsins trúa því að Jesú hafi endurfæðst sem kínversk kona. Yfirvöld í Kína bönnuðu trúarbrögðin rétt fyrir aldamót.
Í dómnum kom fram að Zhang Lidong hafi notað gólfmoppu til að brjóta höfuð konunnar, á meðan hinir mennirnir spörkuðu í hana á gólfi veitingastaðarins.
Zhang Lidong kom fram í sjónvarpi í Kína í júní og játaði glæpinn. „Hún var djöfull,“ sagði hann í viðtali við China Central sjónvarpsstöðina. „Við erum ekki hræddir við lögin, við treystum á Guð,“ bætti hann við.